Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sauðburður, þjóðhátíð og svínaflensa?

 Í gær fékk ég skilaboð um að ég væri búinn að hýði mínu nógu lengi, og nú væri kominn tími til að gera eitthvað. Fólk er sem sagt farið að sakna mín, sem ég skil vel.

 

Ég hef aftur á móti haft nóg að gera þó að lítið hafi sést til mín. Úr kosningaslagnum fór ég nánast beint í sveitina í sauðburðinn, eins og ég minntist á hér. Sauðburðurinn var með mjög öðruvísi sniði en undanfarin ár. Við feðganir urðum að sjá alfarið um búskapinn. Það helgaðist að því að mamma greindist með krabbamein í apríl, og þurfti að fara í aðgerð í byrjun maí á Akureyri. Það gerði hlutina vissulega ekki auðveldari, svona andlega. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að allt gekk vel hjá henni, hún var kominn heim viku seinna og er öll hin hressasta. Það lítur sem sagt allt eins vel út og það gæti gert.

 

Eftir sauðburð hef ég síðan legið í flensu, sem ég var á tímabili farinn að halda að væri eitthvað tengd svínum. Nú er ég hins vegar að verða eins og ég á að mér að vera, stór, sterkur og fallegur :)

 

Ýmislegt hefur gengið á í þjóðmálunum frá kosningum, eins og við mátti búast. Ríkisstjórn var mynduð af kærustuparinu Jóhönnu og Steingrími, og hefur hún sýnt af sér nákvæmlega það sem ég bjóst við.

 

Flokkarnir koma sér ekki saman um stór mál sem skipta íslensku þjóðina höfuðmáli nú á tímum. Enginn samstaða er til staðar í Evrópuaðildarmálinu, fyrir utan að þingsályktunartillagan umtalaða virðist ekki vera nægilega ítarleg. Ice-save málið virðist líka ætla að verða þeim skötuhjúgum fjötur um fót í samstarfinu. Einhvern vegin hefur mér fundist sem að formaður VG, fjármálaráðherra, sé að einangrast í sínum eigin flokki með sína afstöðu til samningsins. Það hljóta að vera viðbrigði fyrir hann að ekki sé lengur klappað fyrir öllu því sem hann segir.

 

Og hvaða aðgerðir höfum við séð hjá stjórninni að öðru leyti? Jú, landsbyggðaskattur í formi hækkaðs eldsneytisverðs og hátekjuskattur. Ráðleysið virðist vera þó nokkuð svo ekki sé meira sagt.

 

Við í Frjálslynda flokknum eigum ekki lengur fulltrúa inn á Alþingi, sem mér þykir mjög miður, og þá sér í lagi þykir það mér miður fyrir íslensku þjóðina sem að hefði gott af því að hafa sterka málsvara fyrir sig við Austurvöll. Ég er ekki frá því að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu gott af því einnig, það verða sennilega viðbrigði fyrir þá að geta ekki lætt hendi sinni í málefni okkar eins og áður.

 

Það er þó ekki uppgjafarhljóð í þeim flokkssystkinum mínum sem ég hef heyrt í frá kosningum. Staðan er þó alls ekki góð, flokkurinn skuldum vafin og engir peningar á leiðinni í kassann. Það verður því að fara í miklu endurbyggingu á flokknum, sem í raun hefði kannski löngu átt að vera búið að gera. Það er aftur á móti ekki farið fram hjá neinum að til þess hefur ekki verið mikill vinnufriður, það ætti öllum að vera ljóst sem hafa svo mikið sem séð fjölmiðil síðustu tvö ár. Það breytir því hins vegar ekki að nú munum við ekki geta komið okkur hjá því að takast á við hlutina, og nú er líka bæði friður og tími til. Framhaldið verður svo bara að koma í ljós.

 

Í bili ætla ég að óska öllum gleðilegrar hátíðar, og segja áfram Ísland. Það verður ekki jafn langt á milli færslna hjá mér, og nú fer maður að heyra í "stríðs"félögunum í XF fyrr en seinna.


Verður ekki langt í næstu kosningar.

Þá er báráttunni lokið í þetta skiptið og ég væri að ljúga ef ég segðist ekki vera ósáttur með útkomuna. Það þýðir aftur á móti ekkert að gráta niðurstöðunar, heldur verður að nýta þetta sem tækifæri til að byggja flokkinn upp að nýju eftir áralanga niðurbrotsstarfsemi nokkurra manna (konur eru líka menn) sem nú verða vonandi fljótt á enda.

Nú er um það bil ár í sveitarstjórnarkosningar, og eftir því sem að ég hef heyrt er mikil hugur í fólki að taka þátt í þeim undir merkjum flokksins víðs vegar um land. Það er svo eitthvað sem segir mér að sú stjórn sem tekur nú við (VG & Samfó) verði ekki langlíf, og við þurfum því ekki að bíða lengi eftir næstu kosningum.

Það er þó ljóst að nóg verður að gera hjá okkur sem virkilega viljum veg Frjálslynda flokksins sem mestan, en erum ekki að hengja okkur í persónulegar vegtyllur.

Áður en að ég fer persónulega að einhverju afli í að hjálpa til við endurreisnina ætla ég að fara heim í Álftafjörðinn, sem er fyrir þá sem ekki vita, fallegasti fjörður á landinu Wink. Næsta mánuðinum eða svo verður eytt við sauðburð, eitthvað sem öllum væri hollt að gera einu sinni á ári. Það er í það minnsta nóg að gera á Starmýri ef að einhverjum af þeim þingmönnum sem ulltu út af þingi á laugardagin vantar eitthvað að gera. Skiptir þá engu hvort menn heita Sigurður Kári eða Grétar Mar, það er ekki farið í manngreiningarálit á sauðburði.

Ég bið að heilsa í bili, um leið og ég þakka öllum þeim sem ég starfaði með hér í Norðausturkjördæmi fyrir samstarfið. Einnig þakka ég þeim sem kusu okkur kærlega fyrir velvildina.


Af hverju þið kjósið Frjálslynda flokkinn í dag

Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður fyrir 10 árum síðan. Sérstaða hans, miðað við flokka sem stofnaðir voru á svipuðum tíma, að hann var ekki stofnaður á grunni annars flokks. Flokkurinn hefur verið langlífari á þingi en flest önnur framboð af sama tagi. Ekki hefur þó vantað upp á hrakspárnar fyrir hverjar einustu kosningar, þó alltaf hafi sannast að fólkið í landinu vilji halda rödd Frjálslynda flokksins lifandi inni á Alþingi.

Það er staðreynd að síðan flokkurinn var stofnaður höfum við Frjálslynd bent á mál sem betur mættu fara. Oftar en ekki hefur komið í ljós að um réttmæta gagnrýni var að ræða, þó að oft væri talað fyrir daufum eyrum. Sum málanna hafa fylgt okkur lengi, eins og breytingar á kvótakerfinu, á því máli var ekki mikill áhugi en nú virðist sem þeir flokkar sem frjálsir eru í sinni afstöðu hafi opnað augu sín fyrir breytingum. Þar má nefna frjálsar handfæraveiðar. Menn skulu þó alltaf vera á varðbergi gagnvart kosningaloforðum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, hefur ásamt fleirum lengi talað gegn verðtrygginguni. Á haustmánuðum 2006 lögðu Frjálslyndir fram þingsályktunartillögu um afnám verðtryggingar lána. Sú umræða einkenndist ekki af því að styttist í kosningar. Á fáum dögum nú í lok mars komu hins vegar tveir leiðtogar fram á sviðið, sem höfðu farið réttu megin fram úr því þeir vildu afnema verðtrygginguna.

Kjósendur verða að huga að því hverjir það eru sem virkilega vilja takast á við það starf sem nú bíður okkar. Frjálslyndi flokkurinn hefur aldrei farið offari í loforðaflaumi, við lofuðum til dæmis ekki ókeypis skólabókum fyrir síðustu kosningar. Við höfum verið nauðsynleg rödd innan veggja Alþingis, nauðsynleg viðbót við þreytta og svifaseina fjórflokka. Rödd fólksins í landinu, en ekki kvótakónga, útrásarvíkina eða annarra hagsmunahópa.

Eins og staðan í dag er ljóst að við verðum nánast að byrja aftur upp á nýtt. Það er alltaf erfitt að byrja, og á sumum sviðum virðast menn aldrei hafa byrjað í raun og veru. Nú verður aftur a móti ekki hjá því komist að byrja. Flokkar verða að fara að vinna saman að því að koma okkar góða landi á fætur aftur. Pólitískt argaþras og málþóf á ekki heima á Alþingi íslendinga. Við teljum að hin góðu gildi heiðarleika, dugnaðar og nægjusemi vera það sem við munum byggja okkar nýja samfélag upp á.

Þó við viljum samráð erum við í Frjálslynda flokknum vissulega með hugmyndir til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum landsins. Um miðjan mars lagði þingflokkur okkar fram frumvarp um frystingu verðtryggingarinnar í 5%, og að það sem umfram væri legðist inn á biðreikning í viðskiptabanka viðkomandi á nafni skuldarans. Unnið væri að því á næstu mánuðum að koma verðbólgunni niður fyrir 5% með lækkun stýrivaxta. Þegar það næðist væri hægt að fá eitthvert yfirlit yfir stöðuna eins og hún væri í raun og veru. Þá væri í framhaldinu hægt að taka ákvarðanir um hvort og þá hversu mikið þyrfti að afskrifa hjá hverjum og einum. Þessi aðgerð hefði hjálpað fólkinu í landinu strax, og þá þeim sem á hjálp þyrftu að halda. Hún hefði einnig gefið ráðamönnum okkar eitthvert ráðrúm. Því miður var þetta góða frumvarp látið daga uppi í viðskiptanefnd, og í staðinn komið fram með greiðsluaðlögun ríkisstjórnarinnar sem mun ekki hjálpa fólkinu í landinu fyrr en það er komið hnén.

Við viljum gera allt til að greiða götu sprota og allra þeirra einstaklinga sem ganga með góðar hugmyndir í maganum, en þurfa bara hjálp til að hrinda þeim í framkvæmd. Frjálslyndi flokkurinn hefur þar komið með lausn sem nýtist ekki aðeins sprotum heldur einnig fyrirtækjum sem starfa nú þegar en eru komin í fjárhagsvandræði. Gengur hún út á stofnun fjárfestingalánasjóð sem getur þjónað allri starfsemi. Þetta yrði í formi langtímalána á viðráðanlegum vöxtum. Ríkið mun þurfa að styðja við fyrirtækin í landinu og fara í mikinn kostnað við það. Með stofnun sjóðsins með aðkomu hagsmunaaðila er þó tryggt að mínusinn sem er á þjóðarbúskapnum yrði ekki stækkaður.

Breytingar á kvótakerfinu teljum við vera nauðsyn. Með innköllun aflaheimilda, sem margar hverjar eru veðsettar í bönkunum sem ríkið hefur eignast, gæti ríkið stuðlað að jákvæðri byggðaþróun eftir áralangt niðurrif. Afskrifa mætti eitthvað af skuldum útgerðanna , en þær eru margar hverjar gríðarlega skuldsettar og sumar halda í sér lífinu í dag með framleigu kvóta sem er en einn lösturinn á núverandi kerfi. Þær afskriftir yrðu settar í pott sem ríkið myndi síðan greiða af með þeim peningum sem kæmu til baka inn í ríkissjóð þegar að úthlutun væri hafin að nýju. Hér er vissulega aðeins hægt að teikna útlínur tillögunnar, en enginn getur með opnum huga neitað að þessar breytingar væru landinu til góða.

Það er staðreynd að niðurskurður mun verða nauðsynlegur, að segja eitthvað annað eru ómarktækar loftbólur sem standast ekki veruleikann. En það þarf að fara í allan niðurskurð að vel athuguðu máli. Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér af afli fyrir því að heilbrigðiskerfið verði síðast á dagskrá þegar að niðurskurði kemur. Það má byrja á hlutum eins og utanríkisþjónustu og varnarmálastofu en bíða eins lengi og hægt er með velferðarkerfi okkar.

Talað hefur verið um allt að 150 milljarða gat sem þurfi að stoppa í. Skattahækkanir munu ekki fylla í gatið nema að litlu leyti. Það er því ljóst að við verðum að framleiða upp í mestan hluta þessa gats. Þá vinnu verðum við að fara í með köldu höfði og leggja til hliðar persónuleg hugðarefni til dæmis í hvalveiðum. Staðreyndin er sú að við verðum að nýta allt það sem getur aukið við tekjur okkar í einhvern tíma. Til að mynda fengjust um 40 milljarðar ef að veitt yrði 100 þúsund tonnum meira af þorski.

Í byrjun árs voru háværar kröfur í samfélaginu um að breytingar yrðu í stjórnmálum landsins. Ein sú breyting var að nýtt og ferskt fólk kæmist í auknum mæli að í forrystusveitum flokkanna. Frjálslyndi flokkurinn í Norðausturkjördæmi lét ekki á sér standa og teflir fram nýju og fersku fólki í sinni framvarðarsveit. Ásta Hafberg er eina konan sem leiðir lista í kjördæminu og í öðru sæti er ungliði, Eiríkur Guðmundsson sem verður 24 ára á árinu og kemur með sýn þess hóps sem mun erfa landið inn í spilið. Að lokum má benda á að samkvæmt könnunum stefnir í að 9 kjördæmakjörnum þingmönnum í kjördæminu verði aðeins ein kona. Með því að setja X-ið við F stuðlið þið að því að þeim fjölgi.

XF fyrir fólkið í landinu.


Höfundar eru Ásta Hafberg og Eiríkur Guðmundsson en þau skipa 1. og 2. sætin á lista Frjálslynda flokksins í Norðausturkjördæmi


Með aflaheimildir til Evrópu?

Á þriðjudagskvöldið mættum við Ásta Hafberg til sameiginlegs fundar í gamla skólanum mínum, Menntaskólanum á Egilsstöðum. Á fundinum, sem var sendur út í svæðisútvarpi austurlands, flutti ég framsögu fyrir hönd okkar Frjálslyndra og var það einstaklega skemmtilegt fyrir mig að standa í sömu pontu og ég gerði fyrir rúmum fjórum árum síðan, þegar ég flutti mína fyrstu opinberu ræðu.

Það var ekki eins gaman að heyra í fulltrúa Samfylkingarinnar, Sigmundi Erni, þegar hann sagðist ekkert sjá að því að fara með aflaheimildir að sameign þjóðarinnar og láta þær ganga kaupum og sölum í Evrópu. Eins og allir vita núorðið er lausn Samfylkingarinnar, á nánast öllum vandamálum heimsins, sú að ganga í Evrópusambandið. Það höfum við fengið að heyra æ ofan í æ. Í þeirri umræðu hafa þó flestir talað um að sérsamninga þyrfi til fyrir náttúruauðlindir okkar. 

Það hlýtur að eiga sér eitthvað skammhlaup í höfðum manna sem láta sér detta svona vitleysishugmyndir í hug.  Hvernig geta menn rökstutt að kjósa svona rugludalla yfir sig inná þing?


79 dagar

Þegar að nýja ríkisstjórnin tók við keflinu 1. febrúar í vetur töluðu forsvarsmenn hennar um 80 daga sem hún hefði fram að kosningum. Þeir eru reydar 83, en látum það nú liggja á milli hluta.

Á þesum tíma ætluðu VG og Samfó að gera allt sem hægt væri til að bjarga heimilinum í landinu, og fyrirtækjunum. Nú átti að vera við lýði velferðarstjórn á Íslandi. Síðan hefur komið í ljós að frekar voru menn svifaseinir í aðgerðum sínum, og voru ekki tilbúnir að hlusta á aðrar hugmyndir en sínar eigin. 

Nú er það síðan ljóst að félags- og trygingamálaráðherra, beið í 79 daga (í rauninni 82) með að úthluta tæpum milljarði úr framkvæmdarstjóði aldraðra. Mikið mæðir á þessu ráðuneyti í árferði eins og nú er, og þá er ekki verra að hafa þar fólk sem er ekki að berjast við að halda sæti sínu á Alþingi, og gerir greinilega allt til að tryggja sér það. Ég á, í það minnsta, erfitt með að trúa því að hún hafi bara allt í einu fundið þennan milljarð í veskinu. Menn taka eftir svona upphæðum eins og staðan er í dag.

Þetta er svo sem ekki ný kosningaaðferð hjá Samfylkingu, sem hefur alltaf verið hrifinn af því að ausa úr loforðaskálinni fyrir kosningar. Þeim finnst greinilega ekkert leiðinlegra að ausa úr ríkiskassanum rétt fyrir kosningar.

Réttast væri að banna allar svona úthlutanir einhverjum tíma fyrir kosningar. Og réttast er fyrir ykkur kjósendur að sjá til þess að þeir sem stunda svona vinnubrögð séu ekki kosnir til áframhaldandi stjórnunar á íslenska ríkiskassanum.


mbl.is Tæpum milljarði úthlutað úr Framkvæmdasjóði aldraðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

8-1

Svona mun hlutfall kynjanna líta út eftir kosningar hér í norðausturkjördæmi, ef eitthvað má marka skoðanakannanir. Því trúi ég ekki að feministar séu ánægðir með það. Við í Frjálslynda flokknum í kjördæminu teflum fram Ástu Hafberg í fyrsta sæti okkar lista. Hún er raunverulegur kostur fyrir þá sem vilja laga þetta kynjahlutfall í 7-2.

Ég hef nú unnið náið með Ástu í rúmlega mánuð, þar sem við höfum verið ofan í hvort öðru nánast því allan tímann. Ég get vottað það, og þori að leggja höfuðið að veði þar um, að hér fer á ferðinni kona sem hefur ekki áhuga á persónulegum vegtyllum heldur setur fólkið í landinu ofar sérhagsmunum. Það mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar. Hún hefur sýnt að það er hægt að ræða stjórnmál án þess að tala í margfalda hringi og vera með upphrópanir og frammiköll. Hún, sem fimm barn móðir, þekkir hvernig þarf að bregðast við þrengingum og hún þekkir til í atvinnulífinu og hefur góðar hugmyndir til handa sprotum og öðru hugmyndaríku fólki.

Austfirðingar, sem og Norðlendingar, þyrftu svo sannarlega ekki að skammast sín fyrir að kjósa loksins konu inná þing sem er tilbúinn að láta í sér heyra og taka til hendinni. Hún sykki ekki í mjúka stóla Alþingis.


mbl.is Færri konur á framboðslistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Móri að stríða Bjarna?

Ég held að Bjarni vinur minn hafi farið eitthvað illa útúr samskiptum sínum við hann Móra, ef hann heldur í raun og veru að VG séu eini kosturinn fyrir þjóðholla íslendinga. Flokkur sem segist vera á leið í ríkisstjórn með Samfó, fái þeir til þess fylgi, getur ekki talist eini kosturinn fyrir þjóðholla íslendinga. Hvað þá góður. Frjálslyndi flokkurinn lét gera könnun hjá sér í vetur til afstöðu félagsmanna til evrópusambandsaðildar, og niðurstaðan gat hreinlega ekki verið skýrari. Mikill meirihluti sagðist ekki vilja ganga í evrópusambandið. Ég kann heldur ekki við það hjá Bjarna að segja enga vera þjóðholla nánast en VG. Aðgerðarleysi þeirra í tengslum við kvótakerfið til að mynda getur ekki vera mikil þjóðhollusta, enda er breytingarkrafan á því eitt brýnasta mál sem hefur snúið að þjóðinni um árabil. Þar er að sjálfssögðu frátalinn sú kreppa sem við upplifum nú. Með breytingum á kerfnu myndum við hins vegar stíga gott og nauðsynlegt skref í rétta átt úr kreppunni. Það virðist VG ekki hafa áhuga á, miðað við síðustu yfirlýsingar.

 

X-F


mbl.is Bjarni Harðarson styður VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heppinn?

Ég lýt reyndar þannig á hlutina að það sé ekki nein sérstök heppni að vera í breska hernum, eða hvaða her sem er ef því er að skipta. Aftur á móti er ekkert hægt að mótmæla því að hann var virkilega heppinn að ekki færi illa.

Þessi frétt leiddi huga minn að því af hverju Ísland væri ennþá á lista yfir viljugar þjóðir, eða staðfastar eins og það var sennilega kallað. Ekki talaði Samfylkingin það lítið um málið fyrir síðustu kosningar, að manni datt ekki annað í hug en að farið væri í það að taka okkur af listanum þegar að hún komst til valda eftir þær kosingar. Það gerðist ekki, og ekki einu sinni núna þegar að mannvinaflokkarnir sem þeir vilja kalla sig sjálfir, komust til valda. Ég geri mér fulla grein fyrir því að nóg er að gera hjá stjórnarflokkunum nú um stundir. En eins og fyrrverandi formaður samfylkingarinnar sagði fyrir tveimur árum síðan, að þá ætti þetta nú að vera lítið mál að koma okkur af þessum lista. Ekki var það margra manna verk að koma okkur á hann. 

Sennilega er þetta þó eins og svo mörg önnur kosningaloforð Samfylkingarinnar fyrir síðustu kosningar. Fríu skólabækurnar sáust ekki, eftirlaunafrumvarpið átti að vera fyrsta verk hennar í ríkisstjórn en lét heldur betur bíða eftir sér.


mbl.is Stálheppinn hermaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fararbroddi?

Það gleymdist nú að minnast á það í þessari frétt að Framsóknarflokkurinn var líka í fararbroddi fyrir því að þagga niður og taka á engan hátt í þarfri umræðu okkar Frjálslyndra um málefni innflytjenda fyrir síðustu kosningar. Ég sat sjálfur á nokkrum fundum þar sem Valgerður Sverrisdóttir barmaði sér nánast yfir því að eiga norskan eiginmann og að henni fyndist hræðilegt að menn töluðu svona, svo ég vitni nú lítillega í hana. Aldrei kom þú almennilega fram, hvorki hjá henni né öðrum, hvað það var sem væri svona hræðilegt. Hvort það væri það að við vildum bæta íslensku kennslu fyrir nýbúa, sjá til þess að þeim væri borguð mannsæmandi laun eða að sjálfsögð mannréttindi þeirra væru virt, eins og að vera ekki smalað eins og sauðfé inn í allof litlar íbúðir. Það kemur reyndar ekki að óvart að svokölluðu fjórflokkar hafi ekki haft áhuga fyrir að taka umræðu við okkur um þessa hluti, enda hafa þeir sýnt það svo um munar að þeir hafa engan áhuga á mannréttindum eins og sést á fiskveiðistjórnunarkerfinu sem er við lýði hér við land. Þrátt fyrir að það brjóti gegn mannréttindum.

Við veltum líka þeim möguleika upp að ef að illa færi hjá okkur gætum við endað uppi með allt upp í 18 þúsund erlenda verkamenn á atvinnuleysisskrá. Það var að sjálfssögðu ef að allt færi á versta veg hér í landinu okkar. Eftir það sem gekk hér á í haust geta menn vonandi séð að svo hefði getað farið, en það sem bjargaði okkur í rauninni var að störf voru að skapast í heimalöndum þessara manna og kvenna, sérstaklega Póllandi þar sem nú er einhver uppgangur. Þeir sáu því að þeir myndu hafa það betra í vinnu heima hjá sér heldur en á atvinnuleysisbótum hér. Það eru nefnilega flestir sem vilja frekar vinna en þiggja atvinnuleysisbætur ef þeir mögulega geta, hvort sem það eru íslendingar eða einhverjir aðrir. 

Nú er aftur á móti farið að styttast í aðrar kosningar og því er öllu tjaldað til hvort sem það er hjá Framsókn, Vinstri grænum, Samfylkingu eða Sjálfstæðisflokki. Hversu mikil inneign sem er nú fyrir hlutunum.


mbl.is Kosningakjötsúpa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og flugvöllinn um kyrrt!

Ég ætla rétt að vona það að okkur íslendingum muni takast að hafa það vit fyrir okkur sjálfum að vera ekki að hrófla við flugvellinum úr vatnsmýrinni. Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir okkur landsbyggðarfólk, þó að ekki væri minnst á nema í tengslum við Landspítalann.

Þess vegna hefur það verið hálf ömurlegt að hlusta á misgáfaða stjórnmálamenn tala um hinar og þessar lausnir á flugvallarmálinu svokallaða. Einn vildi færa völlinn uppá heiði, annar út í fjörð og einn annar vildi bara fljúga á suðurnesin. Einn flokkur hefur þó verið ötull talsmaður landsbyggðarinnar í þessu máli, sem og svo mörgum öðrum. Frjálslyndi flokkurinn. Það er hreinlega ekki hægt að bjóða þeim sem þurfa að sækja sér þjónustu til Reykjavíkur þurfi að lenda upp á heiði, í firði eða í öðru sveitarfélagi á leið sinni.

Það hljóta í rauninni allir skynsamir menn að sjá þetta jafnt og þétt. Það þarf ekkert að fara í einhverja talnaspeki, eða slá um sig með einhverjum frösum um flugvélar eða guð má vita hvað. Ástæðan fyrir því að Sjálfstæðismenn vildu völlinn í burt var reyndar byggingarland. Það fellur um sjálft sig í þessu árferði, það er ekki mikil eftirspurn eftir dýrum húsum lengur. 


mbl.is Framkvæmdir við samgöngumiðstöð geti hafist í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband