Ályktun miðstjórnar Frjálslynda flokksins

Frjálslyndi flokkurinn er fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum um umdeild mál.

Miðstjórn flokksins lýsir þó undrun sinni á því að forsætisráðherra þurfi að vísa stefnumörkun stjórnvalda í sjávarútvegsmálum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Miðstjórn telur óþarft að kjósa um hvort að stjórnvöld hætti mannréttindabrotum.

Frjálslyndi flokkurinn hefur margoft komið með raunhæfar tillögur um hvernig megi komast út úr illræmdu kvótakerfi og hætta mannréttindabrotum og þannig auka verðmæti sjávarfangs landi og þjóð til heilla.

 

Samþykkt í miðstjórn Frjálslynda flokksins þann 28. mars 2010.


Hversu nauðbeygð erum við?

Ríkisstjórnin hefur nú setið í rúmt ár. Enn eru menn að bíða eftir að eitthvað gerist í atvinnuuppbyggingu, Samtök Atvinnulífsins hafa sagt sig frá hinum fræga stöðugleikasáttmála vegna þess hve seint og illa gengur að þeirra mati.

Það hefur þó ekki vantað hugmyndir, sem betur fer líka. Þær eru þó misgóðar, eins og alltaf er hætt við. Sú slakasta sem fram hefur komið er samt sem áður sú sem fram kom í síðustu viku og fól í sér að einkarekið herfyrirtæki frá Hollandi fengi inn á Keflavíkurflugvelli. Ótrúlegt en satt þá voru einhverjir tilbúnir að tala fyrir þessari hugmynd. Þoturnar sem kæmu væru ekki vopnaðar, og þannig var reynt að breiða yfir það að þetta fyrirtæki er ekkert annað en her. Þoturnar eru notaðar til að þjálfa flugmenn í bardögum, flugmenn í bardögum reyna sitt besta til að skjóta niður óvinaþotur. Eftir því sem þú ert betur þjálfaður aukast líkurnar á því að þú hittir. Menn skulu heldur ekki gleyma því að þegar þú skýtur niður óvinaþotu ertu í leiðinni að taka líf þess sem í henni er. Rök þeirra sem héldu þessu standast því enga skoðun.

Það vissu þeir þó sennilega best sjálfir enda var oftast bætt við að staða okkar væri það slæm að Ísland hefði hreinlega ekki efni á því að segja nei. Allt þyrfti að gera og alla kosti þyrfti að skoða. Vissulega er rétt að staðan er ekki góð, atvinnuleysi er mikið og það er hreinlega nauðsynlegt að reyna nánast allt til að smyrja hjól atvinnulífsins, svo maður noti þá stórskemmtilegu klisju. En ég tek fram nánast allt!

Fyrirtæki tengd stríðsrekstri eiga ekki að vera velkominn hingað til lands. Við eigum ekki að vera það nauðbeygð að við glötum virðingu okkar. Þá er ég ekki síður að tala um sjálfsvirðingu okkar en annarra þjóða. Erum við það nauðbeygð að virðingunni sé fórnandi? Það að tengja landið okkar á einhvern hátt við stríð er fyrir neðan okkar virðingu. Þrátt fyrir að útlitið sé svart hér heima eigum við ekki að senda þau skilaboð út til alheimsins að við séum tilbúin í að styðja við hernaðaruppbyggingu. Eru íslendingar nokkuð búnir að gleyma Íraksstríðinu sem er svartur blettur á sögu Íslands, þar sem tveir menn tóku þá ákvörðun að setja nafn landsins okkar á lista viljugra þjóða.

Að sjálfssögðu verður eitthvað að gera hér á landi, og það er alveg rétt að á Keflavíkurflugvelli er ýmislegt til staðar sem gæti nýst í uppbyggingunni. Þar vil ég frekar sjá einkarekið sjúkrahús en þetta, reyndar flest allt en eitthvað sem tengist stríði. Það er nefnilega ekki hægt að bera saman fyrirtæki eins og það hollenska og einkarekið sjúkrahús. Annað fyrirtækið bjargar mannslífum en hitt eyðir þeim.


Landsþing yfirstaðið - Ung Frjálslynd stofnsett

Um helgina var haldið landsþing okkar Frjálslyndra á Hótel Cabin í Borgartúni. Það þing var um margt merkilegt, ný forysta var kjörin. Sigurjón Þórðarson er nýr formaður, Ásta Hafberg varaformaður og Grétar Mar Jónsson ritari. Eins og þeir fjölmörgu sem hafa fylgst með mínum ferli í pólitík vita hef ég unnið náið með bæði Sigurjóni og Ástu í kringum síðustu tvær kosningar í Norð-austur kjördæmi. Ég veit því vel hversu mikið afbragðsfólk er hér á ferð. Grétar er ekki síður frambærilegur. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér aðrar kosningar til trúnaðarstarfa, sem og stjórnmálayfirlýsingu fundarins bendi ég á heimasíðu flokksins.

Ég gekk í Frjálslynda flokkinn á síðasta degi ársins 2006, ef ég man rétt. Þetta var þess vegna þriðja landsþingið sem ég tek þátt í og það langbesta. Samstaða einkenndi fundinn og alla fundargesti, og aftur sá maður mörg andlit sem höfðu ekki þolað niðurrífsstarfssemi manna sem óþarfi er að nafngreina hér.

Það sem upp úr stendur hjá mér eftir helgina er hins vegar endurstofnun ungliðahreyfingar flokksins, en hún hefur legið niðri í nokkurn tíma eftir að einn af ónafngreindu niðurrífsseggjunum hvarf á braut. Mér hlotnaðist sá heiður að vera treyst fyrir forystuhlutverkinu þar og var kjörin formaður. Í stjórn með mér valdist svo einvalalið ungs fólks. Jóhanna Ólafsdóttir úr Grindavík er varaformaður, Hafsteinn Þór Hafsteinsson frá Hafnarfirði ritari og þau Guðrún Einarsdóttir, Höfn og Guðsteinn Haukur Barkarson, Reykjavík, eru meðstjórnendur.

Það er mikilvægt fyrir alla stjórnmálaflokka að hafa sterka ungliðahreyfingu starfandi, en því miður hefur í sannleika sagt vantað nokkuð upp á það í Frjálslynda flokknum. Það er vilji okkar sem nú stöndum að málum að við getum gert flokknum gagn. Öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa í ungliðhreyfingunni verður svo sannarlega tekið fagnandi.

Að lokum vil ég óska öllum þeim sem hlutu kosningu til trúnaðarstarfa í flokknum á Landsþinginu innilega til hamingju, með von um gott samstarf á komandi árum.


Fábjánar og Hálfvitar

Ég verð að viðurkenna að ég er einn af þeim sem versla ennþá í Bónus, svona stöku sinnum. Í gær skaust ég þar inn m.a. til þess að versla mjólk. Inni í mjólkurkælinum sá ég mann sem mér fannst ég kannast við. Ég var nýbúinn að átta mig á að þarna var á ferðinni sjálfur Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunarinnar, holdi klæddur við hliðina á mér þegar að kom maður sem heilsaði honum. Þegar þeir höfðu spurt hvorn annan um daginn og veginn spurði aðkomumaðurinn Jóhann að því hvort að þeir ætluðu ekkert að fara til þess að auka kvótann. Svarið hjá Jóhanni var stutt og laggott. Allir þeir sem tala fyrir kvótaaukningu eru hálfvitar! Hann tók það reyndar sérstaklega fram að aðkomumaðurinn væri undanskilinn þeirri reglu. Ég tek það fram að ég lagði mig ekki mikið í frammi við að "hlera" þetta samtal. Þegar þarna var komið við sögu var ég á leiðinni út úr kæliklefanum.

Nú skal ég ekki segja til um hvort að tilsvarið átti að vera eitthvert grín í ætt við Þráin Bertelsson, en í það minnsta urðu tilsvörin ekki fleiri.

Þetta svar gefur reyndar ágæta mynd af því hugmyndafræðilega gjaldþroti sem Hafró er komið í. Það er orðið það mikið að öll röksæmdafærsla er kominn út á hafsauga, eða kannski er bara svo langt síðan að Jóhann hefur talað við Friðrik J.


Húrra Guðbergur

Eins og ég talaði um í gær er lýðræðisástin missterk hjá fólki, og virðist vera einna veikust hjá þeim sem eiga að stjórna landinu. Sá flokkur sem hæst hefur látið heyrast í sér í þá áttina er vafalaust VG, en að undanförnu höfum við orðið vitni að sönnu eðli þeirra sem þar stjórna. Nýkjörin oddviti flokksins í Reykjavík galar fram fyrir öðrum flokksmönnum hvað þeir eigi að kjósa á borgarstjórnarfundum og frambjóðandi er handsettur í fjórða sæti flokksins á Akureyri, þrátt fyrir að hafa ekki tekið þátt í bindandi prófkjöri.

Það var þó vitað mál að innan hreyfingarinnar, væru einhverjir sem bæru sanna lýðræðisást fyrir brjósti. Það er því gaman að sjá að einhver innan VG var ekki tilbúinn að vera með í klappkór Steingríms fyrir hvað sem er, einhver sem metur hugsjónir ofar völdum. Enda er hann farinn úr VG, og ég er nokkuð viss um að hann er ekki sá síðasti sem fer þá leið.


mbl.is Formaður VG á Akureyri segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðisást fjórflokksins er eins og Hollywood-hjónaband

Það voru mikil læti yfir icesave-málinu í þinginu, eins og fólk man væntanlega eftir. Undir það síðasta var örvænting stjórnarandstöðunnar, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, orðin svo mikil að áður óþekkt lýðræðisást hafði tekið sér bólfestu í hjörtum þingmanna þeirra. Eða svo hélt fólk.
Fólkið í landinu skyldi fá að greiða atkvæði um samninginn, því voru stjórnarflokkarnir langt í frá sammála. Þó svo að það væru sömu flokarnir sem mest börðu sér á brjóst yfir ást sinni á lýðræðinu. Sú ást var reyndar eins og í Hollywood-hjónabandi, þar sem ástin er gríðarleg rétt áður en gengið er upp að altarinu, en dvínar svo fljótt þegar að brúðkaupið er yfirstaðið.

Samt var reynt. Tillögur voru fluttar þess efnis að vísa skyldi málinu í þjóðartakvæðagreiðslu. Allt kom fyrir ekki. En þá kom forseti vor, Ólafur Ragnar, á hvíta hestinum og gerði það sem stjórnarandstöðunni mistókst. Að skjóta málinu í dóm þjóðarinnar. Þá áætluðu nú margir að bros myndu loks birtast á andlitum formanna þeirra flokka sem börðust fyrir nákvæmlega því inn á Alþingi. Svo var alls ekki. Upp úr dúrnum kom að allar tillögur þess efnis um að þjóðin fengi að segja sitt álit voru í raun og veru ekkert nema blekking.

Forsetinn var nefnilega ekki fyrr búinn að sópa málinu af sínu borði, en að farið var að tala um að nú þyrfti að ná þverpólitískri sátt um málið. Það tók ekki nema 15 mánuði að komast að þeirri niðurstöðu.

Það sýndi sig í þessu máli, að vilji fjórflokksins til að leyfa þjóðinni að segja sitt álit er ekki mikill, ef nokkur. Það fylgir ekki hagsmunum þeirra að skerða vald sitt yfir þjóðinni með því að leyfa henni að ráða sínum málum sjálfri. Þess vegna fannst sú samstaða sem um var talað fyrir ári síðan, og menn voru svo hrifnir af rétt fyrir kosningar. Rétt eins og í hjónaböndum í Hollywood þá dvínaði sú hrifning nánast um leið og gengið var frá altarinu.

Samstaðan eða samvinnan sem nú er í gangi, er því í rauninni samstaða um að halda völdunum á sem fæstum höndum.


mbl.is Skýrist á næstu klukkustundum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verið að undirbúa stefnubreytingu

Það brá mörgum í sumar þegar að þingflokkur VG sveigði duglega af leið og lenti ofan í skurði hvað varðar umsókn að Evrópusambandinu. Það þurfti í reynd ekki að koma nokkrum manni að óvart, þar sem að vita mál var að "velferðarstjórnin" yrði aldrei að veruleika ef Samfylkingin fengi ekki þetta helsta baráttumál í gegn. Reyndar var það þannig í kosningabaráttunni að innganga í Evrópusambandið læknaði öll sár, að mati Samfylkingarinnar, síðan þá hefur líka lítið verið gert og sennilegast verið að bíða eftir að "vinir" okkar í Evrópusambandinu bjargi okkur.

Þegar umsóknin var til umræðu og tekin til atkvæðagreiðslu vörðu vinstri menn og konur sig með því að áskilja sér rétt til að neita sjálfri inngöngunni. Nú kemur einn af toppunum í þingflokki þeirra fram og áskilur sér rétt til að breyta um skoðun. Þeir hafa reyndar verið nokkuð duglegir við það þennan stutta tíma sem þeir hafa fengið að sitja í þægilegri stólum.

Það er allt gott og blessað við að skipta um skoðun, það er partur af mannlegu eðli og þroska einstaklinga. Maður hefði þó búist við því að fólk sem sýndi jafn harðvítuga andstöðu gegn svona máli, og reyndar flestum málum, væri búið að kynna sér málin í þaula og því væri lítið nýtt sem komið gæti fram sem breytti þeirra afstöðu. Þetta er nú heldur ekkert smámál.

Er það kannski ekki málið, að nú hafi það ofbeldi sem sumir töldu sig hafa orðið fyrir í sumar tekið sig upp aftur? Það skyldi þó aldrei vera að einhverjum villuráfandi sauðum, að einhverja mati, hafi verið gerð grein fyrir því að þegar að tilkæmi væri líf "velferðarstjórnarinnar" í hættu ef ekki dönsuðu nógu margir í línunni. Það er víst þegar allt kemur til alls, allt betra en íhaldið. Jafnvel þó menn hegði sér ekki ósvipað sjálfir.


mbl.is Eigum að leyfa endurskoðun á öllum sviðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öryggi íslenskra sjómanna og sjómannaafslátturinn

Það var alvarleg frétt sem birtist á visir.is 5.febrúar síðastliðin, og fékk að mínu mati ekki næga athygli fjölmiðla. Þar var sagt frá skipverja á Sturlaugi Böðvarssyni AK sem var haldið gangandi á sprengitöflum og súrefni, svo að notuð séu hans eigin orð. Maðurinn sem reyndist vera með hjartasjúkdóm var staddur sjötíu mílur frá landi, og þar með næsta spítala. Samband var haft við þyrlu Landhelgisgæslunnar, en þaðan bárust þau svör að ekki væri hægt að sækja sjómanninn þar sem að aðeins ein þyrla væri á vakt. Samkvæmt starfsreglum LHG er ekki gert ráð fyrir því að þyrla fari lengra en 20 sjómílur frá landi þegar þannig stendur á. Vegna þessa þurfti að sigla með manninn til hafnar í Reykjavík, þar sem hann komst loks undir læknishendur, og í bráðaaðgerð, heilum 10 klukkutímum frá því að hann kenndi sér meins.

 

Á síðastliðnu ári hefur Landhelgisgæslan mátt þola umtalsverðan niðurskurð. Flugmönnum var sagt upp í fyrra auk þess sem gæslunni hefur verið gert að skera niður kostnað sinn um 300 milljónir króna á þessu ári. Frá því að flugmönnunum var fækkað hefur ekki verið hægt að manna báðar þyrlurnar, eins og áður. Það þarf ekki að fjölyrða um hversu gríðarleg áhrif þessi niðurskurður hefur á öryggi sjómanna okkar íslendinga. Í ofanálag hefur nú verandi velferðarstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ráðist í að afnema sjómannaafsláttinn í þrepum. 1. janúar 2014 mun hann verða úr sögunni. Í athugasemdum við fjárlagafrumvarpið, er talað um að forsendur fyrir sjómannaafslættinum hafi breyst mjög frá því sem áður var. Þar er meðal annars nefndar langar fjarvistir frá heimili og slæmar vinnuaðstæður. Það er kolrangt. Vissulega er allur gangur á því hversu lengi menn eru út á sjó hverju sinni, og einhverjar starfstéttir búa einnig við slíkt. Munurinn er hins vegar sá að þær eru með fast land undir fótum. Það getur svo ekki flokkast annað en sem slæmar vinnuaðstæður að búa við það að ef þú ert svo óheppinn að veikjast eða slasast lengra frá landi en 20 sjómílur sé alls ekkert víst hvort að hjálp sé í boði til að koma þér undir læknishendur.

 

Samt sem áður var ráðist í þessa skerðingu, þrátt fyrir að aðilar sjávarútvegsins mótmæltu á fundi efnahags- og skattanefndar. Fyrir kosningarnar í fyrra hitti ég ungan sjómann á Akureyri sem mætti á kosningaskrifstofu Frjálslynda flokksins með litlu fjölskylduna sína, konu og unga dóttur. Hann hafði áhyggjur af þeim niðurskurði sem þá hafði þegar verið boðaður hjá Landhelgisgæslunni. Við ræddum til að mynda um hugmyndir um hátekjuskatt, sem að margir sjómenn myndu greiða, með eða án sjómannaafsláttar. Þessi ungi sjómaður sagðist glaður myndi leggja sitt af mörkum til ríkissjóðs, en það væri þá eðlileg krafa að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af öryggi sínu. Mikið er ég sammála honum.

 

Hvað er að ávinnast með afnámi sjómannaafsláttar? Samkvæmt frétt frá ríkisskattstjóra, frá júlí í fyrra,fengu 5.736 sjómenn rétt rúman 1,1 milljarð kr. í  sérstakan skattaafslátt vegna vinnu til sjós á síðasta ári. Samkvæmt frumvarpi velferðarstjórnarinnar er gert ráð fyrir því að lækka sjómannaafsláttinn um 25% á ári fram til ársins 2014 eins og fyrr segir. 275 milljónir ættu því að fást í kassann þetta árið. Þegar að Ragna Árnadóttir var spurð um stöðu gæslunnar í kjölfar fréttarinnar sem ég vitnaði í hérna í byrjun sagði hún einfaldlega að þetta væri ekki gott og að þessu þyrfti að breyta, alveg eins og talað úr munni ráðherra með flokkskírteini í Samfylkingunni. Svipuð var reyndar yfirlýsing hennar á Alþingi fyrir rétt tæpu ári. Síðan hefur lítið gerst. Hérna blasir við okkur enn eitt dæmið um það hversu vanhæf þessi ríkisstjórn er til að leita leiða til að ná sátt um þá hluti sem hún tekur sér fyrir hendur. Það þarf ekki mörg háskólapróf til að sjá að með því að veita þeim peningum sem fást með afnámi sjómannaafláttarins til Landhelgisgæslunnar væri í það minnsta stórt skref stigið til betri vegar. Þeir peningar kæmu í raun úr vasa sjómanna, þeirra sem mest þurfa á þjónustu gæslunnar að halda. Ríkissjóður héldi eftir sem áður þeim fjármunum sem skornir voru af til að byrja með. Ég get ekki ímyndað mér annað en að sjómenn væru þá í það minnsta sáttari með sína skerðingu, við hin gætum svo andað aðeins léttar yfir því að mennirnir sem skapa svo stóran hluta af tekjum þjóðarbúsins væru í það minnsta töluvert öruggari í starfi sínu.


Síðasta kjörtímabilið

Ég man vel eftir sumrinu 2004. Það sumar vann ég nærri linnulaust hjá verktakafyrirtækinu Austverk á djúpavogi við að smíða spennistöð fyrir RARIK. Nokkrum dögum áður en ég hóf vinnu bárust þær fréttir að Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefði tekið sig til og synjað fjölmiðlalögunum staðfestingar.

Það fór allt í háa loft, stuðningsmenn ríkistjórnar Sjálfstæðis og Framsóknar voru æfir. Forsetinn talaði um gjá á milli þings og þjóðar og að harðar deilur hefðu verið um frumvarpið sem Alþingi afgreiddi. Hann sagði í framhaldi af því að mikilvægt væri að lagasetning um fjölmiðla styddist við víðtæka umræðu í samfélaginu og að almenn sátt þyrfti að vera um vinnubrögð og niðurstöðu. Af þessu ástæðu var þess vegna best að þjóðin fengi í hendurnar þann rétt til að meta lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sumir héldu því fram í framhaldinu að Forsetinn hefði ekki þessa stoð í stjórnarskránni, eins og hann taldi. Fyrir mitt persónulega leyti hef ég aldrei efast um að hægt væri að vísa málum til þjóðarinnar. Við búum jú í lýðræðisríki, eða eigum allavega að gera það. Þar fyrir utan hafa margir, ef ekki flestir, af okkar mestu lögfræðispekingum sagt það ekki vera um nein tvímæli að ræða í tengslum við það. 

Ég var þess vegna nokkuð ánægður með Forsetann minn þarna í byrjun sumars 2004. Seinna um sumarið kaus ég í fyrsta skipti mér Forseta. Þá var í mínum huga ekki spurning að ég vildi mann á Bessastöðum sem loksins hafði, fyrstur Forseta, haft styrk til að neita staðfestingu laga og þar af leiðandi væri ekki minni líkur á því að slíkt gæti hann gert aftur. Hann væri með öðrum orðum búinn setja sjálfum sér ákveðin viðmið. 

Vissulega voru ekki allir sáttir með  þau lög sem þá voru til meðferðar, en sú óánægja var virkilega mögnuð upp og gerð þannig meiri en hún sennilega var af mjög svo sjálfhverfum fjölmiðlum landsins. 

Aðalmálið er samt það, að ef einhverntíma hefur komið mál inn á borð Forseta sem er þannig vaxið að þjóðin eigi að fá að segja álit sitt á þvi, eiga síðasta orðið. Þá var það núna.


mbl.is Forsetinn staðfestir Icesave-lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindhani í logni - grein í austurglugganum

Það var ekki upplitsdjarfur maður sem sat fyrir svörum í Kastljósi 6. ágúst síðastliðinn sem fjármálaráðherra þjóðarinnar. Það var eins og það væri úr honum allur vindur. Svipað og þegar vindhani hættir að snúast þegar lægt hefur. Það gengur kannski svona nærri honum að svíkja kjósendur sína hvað eftir annað, reyndar ekki aðeins kjósendur heldur er hann að svíkja alla þjóðina langt fram í ófyrirséða framtíð með því að sjá sig ekki knúinn, á einhvern ótrúlegan hátt, til þess að taka stöðu með þeim valkosti í Icesave-samningnum sem kæmi okkur þjóðinni best. Það hlýtur að vera eitt af hlutverkum ráðamanna að gæta hagsmuna þjóðarinnar sem þeir starfa fyrir á hverjum tíma. Það getur ekki hafa breyst þó að vinstri stjórn hafi verið mynduð eftir kosningar í vor.  Þegar ég tala um valkosti er hægt að taka margt inn í þann sviga. Af hverju var til dæmis ekki farið af fullum krafti í dómsstólaleiðina? Af hverju er ekki mögulegt að láta reyna á það lögfræðilega álitaefni sem lögfræðingar á borð við Ragnar Hall hafa látið skoðun sína á í ljós að undanförnu? Mikið hefur verið rætt um svik Vinstri Grænna við kjósendur sína í tengslum við aðildarumsókn að ESB. Það átti þó að vera öllum ljóst í aðdraganda kosninganna að VG gæfi það mál eftir. Að búast við því að Samfylkingin gæfi sitt stærsta mál eftir í stjórnarmyndunarviðræðum voru í besta falli draumórar. Ég sé það ekki í spilunum að innganga í ESB þjóni nokkrum tilgangi fyrir þjóðina, hvað þá að samningaviðræðurnar hafi í för með sér viðundandi samning fyrir okkur. Það er í rauninni mun meiri draumórar en þeir sem talað er um hér að framan. Við höfum líka öll séð hversu góða samningamenn núverandi stjórnarflokkar bjóða upp á. Tímanum og peningunum í betur varið í aðra hluti. Eins og til hjálpar heimilunum í landinu, sem á furðulegan hátt virðast hafa gleymst.  Það sem angraði mig þó mest við að fylgjast með atkvæðagreiðslu um ESB var að horfa upp á þingmenn svo augljóslega kjósa gegn sannfæringu sinni. Því eina sem þeir eru bundnir af, samkvæmt stjórnarskrá. Að horfa til að mynda upp á umhverfisráðherra, nærri því bugaða á því andlega ofbeldi sem virtist fara fram á Alþingi í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar, greiða atkvæði svo greinilega gegn samvisku sinni að það tók á að fylgjast með. Það er ekkert annað en andlegt ofbeldi að hóta stjórnarslitum ef ekki er kosið rétt. Kannski er það ástæðan fyrir því að fjármálaráðherra var eins og brotlent Hindenburg síðastliðin fimmtudag. Það hlýtur að taka á mann að kyngja öllu því sem menn hafa staðið fyrir, og svíkja í leiðinni bæði kjósendur sína og flokk sinn. Það er við hæfi að enda þetta á því að vitna í ræðu sem umræddur Steingrímur hélt 2.nóvember 1999, þar sem honum var tíðrætt um Brüssel-vírusinn. „Er ekki nauðsynlegt að hæstvirtur utanríkisráðherra tali skýrar, tali jafnskýrt á þessa hliðina eins og hæstvirtur ráðherra gerði þegar hann í sinni fyrstu ræðu sem utanríkisráðherra 1995 tók afdráttarlaust af skarið um að það að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu væri ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar og það væri óskynsamlegt og þjónaði ekki hagsmunum Íslands? Hvað hefur breyst síðan þau orð féllu, hæstvirtur utanríkisráðherra?...Er þetta bara vírusinn? Er þetta smitandi?“

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband