18.2.2010 | 17:21
Lýðræðisást fjórflokksins er eins og Hollywood-hjónaband
Það voru mikil læti yfir icesave-málinu í þinginu, eins og fólk man væntanlega eftir. Undir það síðasta var örvænting stjórnarandstöðunnar, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, orðin svo mikil að áður óþekkt lýðræðisást hafði tekið sér bólfestu í hjörtum þingmanna þeirra. Eða svo hélt fólk.
Fólkið í landinu skyldi fá að greiða atkvæði um samninginn, því voru stjórnarflokkarnir langt í frá sammála. Þó svo að það væru sömu flokarnir sem mest börðu sér á brjóst yfir ást sinni á lýðræðinu. Sú ást var reyndar eins og í Hollywood-hjónabandi, þar sem ástin er gríðarleg rétt áður en gengið er upp að altarinu, en dvínar svo fljótt þegar að brúðkaupið er yfirstaðið.
Samt var reynt. Tillögur voru fluttar þess efnis að vísa skyldi málinu í þjóðartakvæðagreiðslu. Allt kom fyrir ekki. En þá kom forseti vor, Ólafur Ragnar, á hvíta hestinum og gerði það sem stjórnarandstöðunni mistókst. Að skjóta málinu í dóm þjóðarinnar. Þá áætluðu nú margir að bros myndu loks birtast á andlitum formanna þeirra flokka sem börðust fyrir nákvæmlega því inn á Alþingi. Svo var alls ekki. Upp úr dúrnum kom að allar tillögur þess efnis um að þjóðin fengi að segja sitt álit voru í raun og veru ekkert nema blekking.
Forsetinn var nefnilega ekki fyrr búinn að sópa málinu af sínu borði, en að farið var að tala um að nú þyrfti að ná þverpólitískri sátt um málið. Það tók ekki nema 15 mánuði að komast að þeirri niðurstöðu.
Það sýndi sig í þessu máli, að vilji fjórflokksins til að leyfa þjóðinni að segja sitt álit er ekki mikill, ef nokkur. Það fylgir ekki hagsmunum þeirra að skerða vald sitt yfir þjóðinni með því að leyfa henni að ráða sínum málum sjálfri. Þess vegna fannst sú samstaða sem um var talað fyrir ári síðan, og menn voru svo hrifnir af rétt fyrir kosningar. Rétt eins og í hjónaböndum í Hollywood þá dvínaði sú hrifning nánast um leið og gengið var frá altarinu.
Samstaðan eða samvinnan sem nú er í gangi, er því í rauninni samstaða um að halda völdunum á sem fæstum höndum.
Skýrist á næstu klukkustundum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.