Landsþing yfirstaðið - Ung Frjálslynd stofnsett

Um helgina var haldið landsþing okkar Frjálslyndra á Hótel Cabin í Borgartúni. Það þing var um margt merkilegt, ný forysta var kjörin. Sigurjón Þórðarson er nýr formaður, Ásta Hafberg varaformaður og Grétar Mar Jónsson ritari. Eins og þeir fjölmörgu sem hafa fylgst með mínum ferli í pólitík vita hef ég unnið náið með bæði Sigurjóni og Ástu í kringum síðustu tvær kosningar í Norð-austur kjördæmi. Ég veit því vel hversu mikið afbragðsfólk er hér á ferð. Grétar er ekki síður frambærilegur. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér aðrar kosningar til trúnaðarstarfa, sem og stjórnmálayfirlýsingu fundarins bendi ég á heimasíðu flokksins.

Ég gekk í Frjálslynda flokkinn á síðasta degi ársins 2006, ef ég man rétt. Þetta var þess vegna þriðja landsþingið sem ég tek þátt í og það langbesta. Samstaða einkenndi fundinn og alla fundargesti, og aftur sá maður mörg andlit sem höfðu ekki þolað niðurrífsstarfssemi manna sem óþarfi er að nafngreina hér.

Það sem upp úr stendur hjá mér eftir helgina er hins vegar endurstofnun ungliðahreyfingar flokksins, en hún hefur legið niðri í nokkurn tíma eftir að einn af ónafngreindu niðurrífsseggjunum hvarf á braut. Mér hlotnaðist sá heiður að vera treyst fyrir forystuhlutverkinu þar og var kjörin formaður. Í stjórn með mér valdist svo einvalalið ungs fólks. Jóhanna Ólafsdóttir úr Grindavík er varaformaður, Hafsteinn Þór Hafsteinsson frá Hafnarfirði ritari og þau Guðrún Einarsdóttir, Höfn og Guðsteinn Haukur Barkarson, Reykjavík, eru meðstjórnendur.

Það er mikilvægt fyrir alla stjórnmálaflokka að hafa sterka ungliðahreyfingu starfandi, en því miður hefur í sannleika sagt vantað nokkuð upp á það í Frjálslynda flokknum. Það er vilji okkar sem nú stöndum að málum að við getum gert flokknum gagn. Öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa í ungliðhreyfingunni verður svo sannarlega tekið fagnandi.

Að lokum vil ég óska öllum þeim sem hlutu kosningu til trúnaðarstarfa í flokknum á Landsþinginu innilega til hamingju, með von um gott samstarf á komandi árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband