Forvarnir

Umræðan um baráttuna gegn ólöglegum vímuefnum kemur fram í þjóðfélaginu með vissu milibili, og fer þá oftar en ekki á mikið flug. Því miður eiga menn það til að setja sér full háleit markmið og eru þau oft á tíðum slagorðakennd eins og slagorð Framsóknarmanna, Fíkniefnalaust Ísland árið 2000, sýndi fram á. Lítið hefur farið fyrir árangri átaksins sem milljarður var settur í.

Fleira hafa menn lagt til að gert væri, til dæmis að efla tollgæslu, þyngja fangelsisdóma, efla meðferðarstarf og stórauka forvarnir.


Erfitt virðist vera að finna einhverja eina rétta leið í forvörnum. Hér á landi hefur verið gert nokkuð að því að tefla fram þekktum einstaklingum sem hafa verið fíklar til forvarna. Í grein eftir Hallgrím Óskarsson, sem birtist í Morgunblaðinu, segir hann frá nýrri bandarískri rannsókn sem gefur til kynna að forvarnir geti haft þveröfug áhrif. Þar gerir hann einmitt þáttöku fyrrum fíkla að umtölunarefni.


“Algengt er að fá þekkta einstaklinga sem sigrast hafa á fíkniefnanotkun til forvarnastarfa. Spurningarmerki þarf að setja um þáttöku slíks fólks í forvörnum og hvernig það kemur skilaboðunum á framfæri því sýnt hefur verið fram á að notkun fíkniefna aukist ef áhorfendur tengja þáttakendurna við jákvæða eiginleika eins og hreysti, vinsældir eða velgengni.” Hallgrímur, sem er framkvæmdastjóri rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækis, bendir einnig á að niðurstöður sýni að forvarnir í áróðursformi geti haft þveröfug áhrif. Nauðsynlegt er að fara í gegnum þessar rannsóknir sem hér um ræðir og nýta þær í áróðri hér á landi.


Vanda þarf umræðuna um ólögleg fíkniefni. Í fréttum birtist sú mynd oftar en ekki að fíkniefnaheimurinn sé alltaf að verða harðari og frumskógarlögmálið sé það eina sem ráði ríkjum þar. Talað er um gríðarlegar fjárhæðir sem þessi heimur á að velta og gefið er í skyn að menn geti efnast vel í viðskiptum sem þessum. Sú mynd er mjög óraunsæ, að mínu mati, og getur gefið þá mynd að fíkniefni séu á einhvern hátt spennandi. Unglingum getur jafnvel þótt flott og spennandi að geta líkt sér við einhverja harða kalla sem græða fullt af peningum. Peningaleysi tengist að mínu mati miklu frekar fíkniefnum, enda höfum við ósjaldan heyrt fréttir af innbrotum sem framin eru til að fjármagna fíkniefnaneyslu.


Umræðan er oft á tíðum einfölduð og öll þau mismunandi efni sett saman undir einn hatt sem kallist eiturlyf. Mikilvægt er að tala um hlutina eins og þeir eru og láta alls ekki líta út fyrir að gróðavon og spenna fylgi því að ánetjast fíkniefnum. Þá hafa menn þvert á móti á hættu mikin peningamissi, að vera rekinn úr vinnu og margt margt fleira.

 

Fíkniefni missa einfaldlega aðdráttarafl sitt ef að sagan er sögð eins og hún er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband