Austurland framtíðarinnar

Ég bý á austurlandi, og hef gert allt mitt líf. Ég stend þó frammi fyrir því að þurfa, fyrr en seinna að hafa mig á brott, um stundarsakir að minnsta kosti, í háskólanám. Ég vil þó koma aftur og geta búið á austurlandi og starfað við það sem ég ákveð að taka mér fyrir hendur í námi. Svona er komið fyrir mörgum öðrum sem eru annaðhvort í námi, eða eru á leið í það.


Það er nefnilega hægt að gera margt til að gera þennan landsfjórðung fýsilegri til búsetu. Lenging Egilsstaðaflugvallar myndi breyta miklu í utanlandsflugi fyrir okkur sem viljum búa hér í framtíðinni. Átak í jarðgangnagerð myndi stytta ferðatíma innan fjórðungsins gríðarlega. Ferðatími frá Egilstöðum yrði ekki lengri en klukkutíma frá þéttbýlisstöðum austurlands. Ekki má gleyma því umferðaröryggi sem jarðgöng hafa í för með sér.


Við höfum tækifæri til að byggja upp byggðirnar, m.a. með því að afnema það óréttláta kerfi sem við íslendingar búum við í sjávarútvegsmálum. Þorpin hér fyrir austan hafa alla möguleika til að blómstra og stækka, eftir áralanga kreppu, ef að aðstæður til nýtingu þeirra auðlinda sem þau eru svo stutt frá. Fólk hefur heimtingu á því frelsi að geta unnið við þá atvinnu sem það hefur áhuga á að vinna við. Það er heldur ekki spurning að þjónustusamfélagið sem er á héraði myndi styrkjast við að fjölgun ætti sér stað í sjávarþorpunum, hér getur verið miðstöð verslunar og þjónustu í fjórðungnum. Það er því stórmál að breyta aðstæðum minni staða austurlands.


Auk verslunar og þjónustu er einnig mikilvægt að byggja enn frekar á þeim grunni sem lagður hefur verið til menntunar, bæði á Egilstöðum og Neskaupstað. Styrkja þarf ennfrekar Menntaskólann á Egilstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað. Einnig á að mínu mati að ráðast sem fyrst í uppbyggingu háskólamenntunar á Fljótsdalshéraði. Við lifum á 21. öld og það er ekki vafi í mínum huga að háskóla í hvern landsfjórðung ætti að vera keppikefli okkar. Ef við höldum einnig rétt á spöðunum í menningarmálum hér fyrir austan og byggjum ofan á það góða starf sem hið dugmikla fólk hér hefur unnið getum við orðið í forystu landsbyggðarinnar, og hreinlega gert það spennandi kost fyrir fleira skapandi og hugmyndaríkt fólk að setjast hér að.


Sjáið þið ekki þessa framtíðarsýn fyrir ykkur með mér? Egilsstaðir miðstöð verslunar og þjónustu á svæðinu, með menntaskóla og háskóla. Fjórðungssjúkrahús og öflugur verkmenntaskóli í Neskaupstað. Öll vitum við að álverið á Reyðarfirði er ekki að fara neitt og um allt austurland gætu þeir smábátaeigendur sem vildu veiða loksins gert það í réttlátu kerfi, auk þess sem skilyrði stærri útgerða myndu ekki versna. Meira svigrúm yrði einnig fyrir nýsköpun í byggðalögunum og allskonar önnur starfsemi myndi byggjast upp, enda gerist það með fleira fólki að fleiri hugmyndir koma inn. Menningarstarfsemi myndi blómstra og allt þetta væri í seilingarfjarlægð, liggur við hvar sem þú værir á austurlandi.


Svona austurlandi myndi ég svo sannarlega vilja búa í, og ef að þú vilt það líka lesandi góður, þá kýstu Frjálslynda flokkinn 12. maí.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband