2.6.2008 | 01:20
Kannski að maður láti heyra í sér aftur...
Það fer að nálgast ár síðan ég setti niður nokkur orð á síðunni hérna síðast, og í rauninni ekkert af viti síðan að það var kosið. Eins skemmtilegt og það var að taka þátt í baráttunni í fyrra þá ákvað ég að kúpla mig aðeins út um tíma. Það er nú ekki þar með sagt að ég hafi hætt að fylgjast með eða hafi sleppt því að hafa skoðanir á hlutunum, enda vita þeir sem þekkja mig að ég á mjög erfitt með það. Hafandi sagt þetta þá held ég að það sé kominn tími til að ég blási aðeins lífi í síðuna hérna.
Það hefur ýmislegt gerst hjá mér á þessu ári, ég er búinn að flytja tvisvar sinnum hérna innan Egilstaða og nú síðast í gær. Í sumar mun ég búa hjá Gunnari Gunnarssyni tilvonandi fjölmiðlagúrú, þangað til ég fer suður í lögfræðina í haust. Hann er reyndar framsóknarmaður, en ég vona að mér verði fyrirgefið það. Ég hef haldið áfram að vinna hjá Tréiðjunni Eini og mun halda því áfram eitthvað fram í ágústmánuðinn. Í febrúar var ég reyndar greindur með brjósklos og var aðeins frá vinnu vegna þess. Það var sem betur fer bara lítið og með því að beita mér rétt og passa mig þá hef ég getað unnið og er allur að skríða saman. Svo hefur maður aðeins verið að dufla við listagyðjuna, sem ég hef reyndar gert í þó nokkurn tíma. Ég hef aðeins verið að taka upp tónlist eftir mig og ég held að ég leyfi ykkur að heyra lag sem ég sendi í sjómannalagakeppni Rásar 2 um daginn. Það naut nú reyndar ekki náð fyrir augum dómnefndarinnar, og það er eitthvað sem segir mér að það hafi eitthvað að gera með textann sem einhver ykkar gætu þó verið ánægð með. Svo ákvað ég að byrja á skáldsögu sem ég ætlaði reyndar að vera búinn með núna, en ég held að ég láti allar frekari tímasetningar með hana vera.
Nú held ég að allar þær spurningar, sem hafa án nokkurs vafa velkst um í huga ykkar, séu komnar fram og þið getið því vonandi sofið róleg.
Sjáumst í baráttunni
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:11 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.