Baráttan að fara í gang

Egilsstaðir skörtuðu sínu fegursta í dag þegar við Frjálslynd í norðausturkjördæmi opnuðum kosningaskrifstofu okkar í bænum. Á morgun skundum við Ásta, sem leiðir listann í kjördæminu, svo norður á Akureyri héðan að austan og opnum skrifstofuna þar. Svo byrjar bara fundarherferðin á mánudaginn með fundi á Siglufirði um kvöldið. Vorið er semsagt að koma, enda sást víst lóan í hornafirði fyrir stuttu. 

Listinn hjá okkur er líka tilbúinn og mun ég persónulega verma 4.sæti listans, auk þess sem ég verð titlaður kosningastjóri í kjördæminu. Undanfarin vika eða svo hefur farið nánast öll í það að skipuleggja fundaherferð og heimsóknir hér og þar, ferðast á milli Akureyrar og Egilsstaða auk þess sem maður reynir að fylgjast með fréttum og öllu því sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Ég var til að mynda að skoða fréttavef Austurgluggans, þar skoðaði ég til dæmis listann okkar sem ég sendi á fjölmiðla í gær. Þeir sem glöggir eru taka eftir því að þar eru aðeins taldir um 19 nöfn á lista. Þetta gerðist reyndar á mbl líka, þar sem að Oddur Jóhannsson á Vopnafirði var strokaður út úr 17.sætinu sínu. Virðist reyndar sýna það að ritstýra gluggans noti Copy/paste aðferðina. Það virðist heldur ekki vera áhugi fyrir því að laga viðkomandi mistök, þó að bent hafi verið góðfúslega á þau.

Ég vil svo sem ekki vera með nein leiðindi útí neinn, sérstaklega ekki fjölmiðla sem gera sjálfsagt sitt allra allra besta. En til að ljúka umfjöllun minni, þá kíkti ég áðan aftur á austurgluggann. Þar var frétt um lista sjálfstæðismanna í kjördæminu. Þarna eru nokkur önnur vinnubrögð viðhöfð, reyndar annar höfundur að greininni en þeirri sem fjallaði um okkar lista. Þarna er fólk titlað ýmislegt, nemar, alþingismenn og þar fram eftir götunum og tekið er fram hvaðan fólk er. Þetta er ekki gert í fréttinni um okkur, þó svo að ég hafi persónulega gefið upp nákvæmlega sömu upplýsingar um okkar fólk.

Ég geri mér grein fyrir að kannski hljómar þetta eins og argasta smámunasemi í eyrum einhverra, en er þetta samt bara ekki eitthvað sem á að vera algjörlega fíflhelt að gera? Eða er það einhver óskrifuð regla, meira að segja á héraðsfréttablöðum, að gera sem minnst fyrir eða úr Frjálslynda flokknum? sama hvernig menn gera það.

Það er sorglegt að hægt sé orðið að segja að maður sé orðinn vanur þessari meðferð. Sorglegt!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband