3.4.2009 | 22:07
Að byrja á vitlausum enda
Mikið væri ég til í að skrifa undir þennan lista til hans Ögmundar. Við sem skipum 3 efstu sæti Frjálslynda flokksins í norðaustur kjördæmi héldum einmitt fund á Þórshöfn 1.apríl auk þess sem við kíktum við á Raufarhöfn og Kópaskeri. Í þessari ferð fengum við að kynnast vegakerfinu á milli Raufarhafnar og Þórshafnar, og það er ekkert sem ég öfunda íbúa svæðisins af.
Það er furðuleg ráðstöfun að hefjast handa á því að skera niður þjónustu við fólk í jaðarbyggðum landsins. Fólki sem býr ekki við jafn góðar samgöngur og til að mynda fólk á suðvestur horninu, eða hvar sem er annarsstaðar ef því er að skipta. Það er ekki verjandi að bjóða fólki upp á þá þjónustu, eða þjónustuleysi réttara sagt, sem Ögmundur ætlar sér að gera. Ég hefði reyndar búist við að þetta yrði eitt af verkum fyrirrennara hans í stóli, en að maður sem skilgreinir sig sem mann velferðar og jafnaðar skuli taka sér svona verk fyrir hendur skil ég ekki.
Þetta er heldur ekki eini furðulegi niðurskurðurinn hjá Ögmundi þessa daganna, en nú er búið að leggja niður læknisheimsóknir til Borgarfjarðar eystri, sem voru þó aðeins einu sinni í mánuði. Að mínu mati er það algjör þjónusta. Fólk verður nefnilega líka veikt á þessum stöðum þó að það sé kannski erfitt að finna þá á korti fyrir einhverja. Það er algjörlega óásættanlegt að ætlast til þess að fólk í jaðarbyggðum þessa lands þurfi að ferðast langan veg um misgóða vegakafla til þess að sækja lágmarks þjónustu í landinu. Þjónustu sem það borgar alveg jafn mikið fyrir og annað fólk í þessu landi. Fólkið á Borgarfirði og Þórshöfn borgar nefnilega líka skatta!
Það hefði nú ef til vill verið hægt að spara einhverja peninga á stærri stofnunum fyrst að á annað borð þurfti endilega að skera niður á þessum enda, sem er vissulega alltaf erfitt fyrir þá sem telja sig velferðarmenn. Það er aftur á móti alveg morgunljóst að núverandi ríkisstjórn stendur ekki undir nafni sem velferðarstjórn með þessum aðgerðum.
Velferðarstjórn fyrir alla takk fyrir!
Biðla til Ögmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.