Borgarfjörður Eystri

Í gær fór ég á framboðsfund á Borgarfjörð Eystri með Sigurjóni Þórðarsyni. Það er heldur langt síðan að ég kom þangað síðast en staðurinn er alltaf jafnfallegur. Ágætlega var mætt á fundinn í þessu 150 manna þorpi og virtist sem fundarmönnum líkaði vel við það sem fram kom á fundinum. Það kemur mér reyndar ekki að óvart þar sem að ég tel Frjálslynda flokkinn vera eina vitræna kostinn í stöðunni fyrir byggðir eins og Borgarfjörð. Frjálslyndi flokkurinn er einfaldlega eina svarið fyrir byggðir sem bygga stóran hluta afkomu sinnar á sjávarútvegi. Ég er til að mynda nokkuð viss um að íbúar Borgarfjarðar tækju því fangandi að frjálsar handfæraveiðar yrðu leyfðar, og yrðu ekki einir um það. Svo undarlega sem það hljómar þá virðist svo vera að við í Frjálslynda flokknum séum eina stjórnmálaaflið sem viljum breyta því meingallaða fiskveiðistjórnunarkerfi sem við búuum við í dag. Þessa stundina hamast stjórnarflokkarnir við að koma merkingarlausu ákvæði í stjórnarskrá sem segir að náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign. Það segir fyrsta setning 1.gr frumvarpsins, sú grein er ekki löng en endar á þessum orðum. "Ekki skal þetta vera því til fyrirstöðu að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum."

Þetta sýnir svo ekki verði um villst að þetta frumvarp breytir engu og er ekkert nema merkingarlaust "skraut" í stjórnarskránna. Það virðist því miður vera svo að ekki viti allir hvað þetta frumvarp gengur í raun útá og sýnir það sig í könnun sem Fréttablaðið gerði þar sem rúm 66 % aðspurða sögðust vera hlynnt frumvarpinu. Það hljómar nefnilega ágætlega að verið sé að gera fiskinn að eign þjóðarinnar, og það er það sem almenningur heyrir, það eru færri sem átta sig á merkingarleysinu í þessu öllu saman virðist vera.

Það er því fullreynt að stjórnarflokkarnir hafa það ekki í hyggju að breyta neinu. Ég hef því miður ekki séð félaga okkar Frjálslyndra í stjórnarandstöðu gefa fiskveiðistjórnun mikin gaum hingað til. Það er því rétt skref, og gott, fyrir fólk úr sjávarbyggðum landsins að kjósa okkur 12. maí í vor. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband