17.6.2009 | 15:03
Sauðburður, þjóðhátíð og svínaflensa?
Í gær fékk ég skilaboð um að ég væri búinn að hýði mínu nógu lengi, og nú væri kominn tími til að gera eitthvað. Fólk er sem sagt farið að sakna mín, sem ég skil vel.
Ég hef aftur á móti haft nóg að gera þó að lítið hafi sést til mín. Úr kosningaslagnum fór ég nánast beint í sveitina í sauðburðinn, eins og ég minntist á hér. Sauðburðurinn var með mjög öðruvísi sniði en undanfarin ár. Við feðganir urðum að sjá alfarið um búskapinn. Það helgaðist að því að mamma greindist með krabbamein í apríl, og þurfti að fara í aðgerð í byrjun maí á Akureyri. Það gerði hlutina vissulega ekki auðveldari, svona andlega. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að allt gekk vel hjá henni, hún var kominn heim viku seinna og er öll hin hressasta. Það lítur sem sagt allt eins vel út og það gæti gert.
Eftir sauðburð hef ég síðan legið í flensu, sem ég var á tímabili farinn að halda að væri eitthvað tengd svínum. Nú er ég hins vegar að verða eins og ég á að mér að vera, stór, sterkur og fallegur :)
Ýmislegt hefur gengið á í þjóðmálunum frá kosningum, eins og við mátti búast. Ríkisstjórn var mynduð af kærustuparinu Jóhönnu og Steingrími, og hefur hún sýnt af sér nákvæmlega það sem ég bjóst við.
Flokkarnir koma sér ekki saman um stór mál sem skipta íslensku þjóðina höfuðmáli nú á tímum. Enginn samstaða er til staðar í Evrópuaðildarmálinu, fyrir utan að þingsályktunartillagan umtalaða virðist ekki vera nægilega ítarleg. Ice-save málið virðist líka ætla að verða þeim skötuhjúgum fjötur um fót í samstarfinu. Einhvern vegin hefur mér fundist sem að formaður VG, fjármálaráðherra, sé að einangrast í sínum eigin flokki með sína afstöðu til samningsins. Það hljóta að vera viðbrigði fyrir hann að ekki sé lengur klappað fyrir öllu því sem hann segir.
Og hvaða aðgerðir höfum við séð hjá stjórninni að öðru leyti? Jú, landsbyggðaskattur í formi hækkaðs eldsneytisverðs og hátekjuskattur. Ráðleysið virðist vera þó nokkuð svo ekki sé meira sagt.
Við í Frjálslynda flokknum eigum ekki lengur fulltrúa inn á Alþingi, sem mér þykir mjög miður, og þá sér í lagi þykir það mér miður fyrir íslensku þjóðina sem að hefði gott af því að hafa sterka málsvara fyrir sig við Austurvöll. Ég er ekki frá því að ríkisstjórnarflokkarnir hefðu gott af því einnig, það verða sennilega viðbrigði fyrir þá að geta ekki lætt hendi sinni í málefni okkar eins og áður.
Það er þó ekki uppgjafarhljóð í þeim flokkssystkinum mínum sem ég hef heyrt í frá kosningum. Staðan er þó alls ekki góð, flokkurinn skuldum vafin og engir peningar á leiðinni í kassann. Það verður því að fara í miklu endurbyggingu á flokknum, sem í raun hefði kannski löngu átt að vera búið að gera. Það er aftur á móti ekki farið fram hjá neinum að til þess hefur ekki verið mikill vinnufriður, það ætti öllum að vera ljóst sem hafa svo mikið sem séð fjölmiðil síðustu tvö ár. Það breytir því hins vegar ekki að nú munum við ekki geta komið okkur hjá því að takast á við hlutina, og nú er líka bæði friður og tími til. Framhaldið verður svo bara að koma í ljós.
Í bili ætla ég að óska öllum gleðilegrar hátíðar, og segja áfram Ísland. Það verður ekki jafn langt á milli færslna hjá mér, og nú fer maður að heyra í "stríðs"félögunum í XF fyrr en seinna.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.