Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Forvarnir

Umræðan um baráttuna gegn ólöglegum vímuefnum kemur fram í þjóðfélaginu með vissu milibili, og fer þá oftar en ekki á mikið flug. Því miður eiga menn það til að setja sér full háleit markmið og eru þau oft á tíðum slagorðakennd eins og slagorð Framsóknarmanna, Fíkniefnalaust Ísland árið 2000, sýndi fram á. Lítið hefur farið fyrir árangri átaksins sem milljarður var settur í.

Fleira hafa menn lagt til að gert væri, til dæmis að efla tollgæslu, þyngja fangelsisdóma, efla meðferðarstarf og stórauka forvarnir.


Erfitt virðist vera að finna einhverja eina rétta leið í forvörnum. Hér á landi hefur verið gert nokkuð að því að tefla fram þekktum einstaklingum sem hafa verið fíklar til forvarna. Í grein eftir Hallgrím Óskarsson, sem birtist í Morgunblaðinu, segir hann frá nýrri bandarískri rannsókn sem gefur til kynna að forvarnir geti haft þveröfug áhrif. Þar gerir hann einmitt þáttöku fyrrum fíkla að umtölunarefni.


“Algengt er að fá þekkta einstaklinga sem sigrast hafa á fíkniefnanotkun til forvarnastarfa. Spurningarmerki þarf að setja um þáttöku slíks fólks í forvörnum og hvernig það kemur skilaboðunum á framfæri því sýnt hefur verið fram á að notkun fíkniefna aukist ef áhorfendur tengja þáttakendurna við jákvæða eiginleika eins og hreysti, vinsældir eða velgengni.” Hallgrímur, sem er framkvæmdastjóri rannsóknar- og ráðgjafafyrirtækis, bendir einnig á að niðurstöður sýni að forvarnir í áróðursformi geti haft þveröfug áhrif. Nauðsynlegt er að fara í gegnum þessar rannsóknir sem hér um ræðir og nýta þær í áróðri hér á landi.


Vanda þarf umræðuna um ólögleg fíkniefni. Í fréttum birtist sú mynd oftar en ekki að fíkniefnaheimurinn sé alltaf að verða harðari og frumskógarlögmálið sé það eina sem ráði ríkjum þar. Talað er um gríðarlegar fjárhæðir sem þessi heimur á að velta og gefið er í skyn að menn geti efnast vel í viðskiptum sem þessum. Sú mynd er mjög óraunsæ, að mínu mati, og getur gefið þá mynd að fíkniefni séu á einhvern hátt spennandi. Unglingum getur jafnvel þótt flott og spennandi að geta líkt sér við einhverja harða kalla sem græða fullt af peningum. Peningaleysi tengist að mínu mati miklu frekar fíkniefnum, enda höfum við ósjaldan heyrt fréttir af innbrotum sem framin eru til að fjármagna fíkniefnaneyslu.


Umræðan er oft á tíðum einfölduð og öll þau mismunandi efni sett saman undir einn hatt sem kallist eiturlyf. Mikilvægt er að tala um hlutina eins og þeir eru og láta alls ekki líta út fyrir að gróðavon og spenna fylgi því að ánetjast fíkniefnum. Þá hafa menn þvert á móti á hættu mikin peningamissi, að vera rekinn úr vinnu og margt margt fleira.

 

Fíkniefni missa einfaldlega aðdráttarafl sitt ef að sagan er sögð eins og hún er.


Heilbrigðiskerfið

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, gerði mikið úr ágæti heilbrigðiskerfisins í kosningarþætti á Stöð 2 fyrir stuttu. Hún hélt því hikstalaust fram að það væri hið besta sem fyrirfyndist og engu líkara var en ekkert þyrfti að laga né bæta í þeim málaflokknum. Ekki er nú furða að kjósendur skuli vera að snúa baki við Framsóknarflokknum í hrönnum nú um stundir ef að einn af forrystusauðunum sér ekki hversu erfitt ástandið er á heilbrigðisstofnunum landsins, eða kýs einfaldlega að loka augunum fyrir því og skeita engu aðfinnslum þeirra sem vilija hér betra heilbrigðiskerfi. 

 Frétt sem sögð var í fréttum stöðvar 2 í dag, hrekur það ágæti sem Siv hefur á sinni stjórnun. Niðurskurður hefur verið gríðarlegur og í fréttum var sagt frá því þegar að manni í sjálfsmorðshugleiðingum var komið fyrir inná baðherbergi, vegna þess að deildin var yfirfull. Maður í bráðri lífshættu var því vistaður inná klósetti, þar sem að hreinsiefni voru geymd á vaski inn á klósettinu. Farið var óvægilega með hnífinn í heilbrigðiskerfinu sem þetta mál sýnir vel. Engu að síður telur heilbrigðisráðherra sjálfur að hvergi sé hægt að finna betra kerfi. 


Ekki nógu vel fylgst með?

Aðgerðirnar sem áttu að koma sér svo vel fyrir okkur almenning í landinu virðast ekki vera að ganga upp. Við hljótum að spyrja okkur hvort að nógu vel hafi verið staðið að breytingu, eftirlit með því að lækkanir hafi átt sér stað virðast ekki vera nógu góðar. Undirbúningur var raunar sagður slæmur skömmu áður en að lækkuninar fóru í gegn en Árni Mathiesen fjármálaráðherra brást ókvæða við þeirri gagnrýni. Nú hefur samt sem áður sýnt sig að hú hefur kannski átt rétt á sér.
mbl.is Meirihluti veitinga- og kaffihúsa hafa ekki lækkað verð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðlendumál ríkisstjórnarinnar

Matsnefnd eignarnámsbóta komst að þeirri stórmerkilegu niðurstöðu að Landsvirkjun skyldi greiða 63,7 milljónir til eigenda Búrar í Jökuldal í bætur fyrir land sem var tekið eignarnámi í tengslum við Kárahnjúkavirkjun. Það er ekki lítið af landi sem þarna um ræðir, heldur 3025 hektrar auk 400.000 rúmmetra af möl sem var notuð í stífluna sem ríkisstjórninni finnst svo góð. 

Sá galli er samt á "gjöf" njarðar er að eigendurnir munu kannski aldrei sjá þessar tæpar 64 milljónir ,sem þeim var svo "höfðinglega" skammtað, þar sem Ríkið hefur gert tilkall til allrar jarðarinnar og kallar hana þjóðlendu. Ef svo fer að Ríkið hrifsar hana til sín taka þeir bæturnar einnig. Ég segi þeir því að núverandi þjóðlendustefna hefur verið eitt af baráttumálum Ríkisstjórnarinnar sem er vonandi að fara frá völdum í vor. Ef að fólk hefur verið að velta fyrir sér ástæðum krafna Ríkisins um þjóðlendur hér og þar, meðal annars við Húsavík, þá ættu menn að vera farnir sjá munstrið sem liggur þarna. Hvað eiga "þjóðlendurnar" í Jökuldal og Þingeyjasýslum til að mynda sameiginlegt?

Svarið er einfalt. Í báðum tilvikum er um land að ræða sem notast þarf við í tengslum við virkjanir. Nú þegar hefur verið virkjað að Kárahnjúkum eins og væntanlega hefur ekki farið framhjá nokkrum manni og öll vitum við um vilja Ríkisstjórnaflokkanna til að virkja jarðvarma við Húsavík. Það sem vakir greinilega fyrir Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki er að taka það land eignarnámi sem notast verður við í Þingeyjarsýslum. Ríkið mun síðan sitja á þessum jörðum þar til að framkvæmdir nálgast en þá mun landið verða afhent Landsvirkjun eða öðrum hlutaðeigandi, og væntanlega passa sig á að okra ekki of mikið á því.

Þetta er auðvitað allt saman háð því að þessir tveir flokkar nái meirihluta í Ríkisstjórn enn eina ferðina, sem ég tel hæpið. Frjálslyndi Flokkurinn hefur frá upphafi verið á móti þjóðlendumálunum, hvar sem þau hafa sprottið upp og nú ætti almenningur að sjá hvers vegna! Það að ætla að taka land sem er í eigu manna sem haft hafa nytjar af því jafnvel í marga ættliði er svívirðilegt. Ennþá meiri firra er að fara fram á að eigendur jarðanna verði að sýna fram á eignarrétt sinn langt aftur í aldir. Það er kannski ekki að ástæðulausu að það var alveg sleppt því að minnast á þjóðlenduklausu dómsins í fréttinni?

Við vitum öll hvar Ríkisstjórnarflokkarnir standa í þessu máli. Vilja kjósendur NA-kjördæmis virkilega að þetta óréttlæti ásamt fleiru nái fram að ganga?


mbl.is Landsvirkjun greiðir 63,7 milljónir fyrir land sem fer undir Hálslón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn hræddir

Í Silfri Egils á stöð 2 var í dag rétt við þau Pétur Tyrfingsson, Björgvin Val Gunnarsson, Margréti Sverrisdóttur og Óla Björn Kárason. Í spjalli þeirra var skotið mjög föstum og ógeðfelldum skotum að Frjálslynda flokknum, rétt eins og hefur verið gert undanfarið í tengslum við innflytjendamálin. Það er að mínu mati ekki góð þáttastjórnun að hafa ekki einhvern talsmann okkar á meðal viðmælenda þegar jafn harkalega er vegið að flokknum og gert var þarna. Þetta er kannski nýtt útspil hjá þessu blessaða fólki sem hefur síendurtekið þessar dylgjur í garð okkar í spjallþáttum og kosningafundum sjónvarpstöðvanna en hafa lítils mátt sín gegn fulltrúum Frjálslynda flokksins í þeim umræðum. Í ljósi þess finnst þeim eðlilega betra að vera lausir við okkur í svona þáttum þar sem þeir geta komið fram með svona dylgjur án þess að þurfa að verja þær nokkuð.

Eða er Egill Helgason kannski í fýlu við okkur Frjálslynda eftir að Grétar Mar tók hann í nefið í beinni útsendingu í vikunni sem leið?

 


Sigurjón inni samkvæmt nýrri könnun

Gallup kynnti nýja könnun úr Norðausturkjödæmi í gær. Samkvæmt henni erum við Frjálslyndir með 6,3% sem þýðir að oddviti okkar, Sigurjón Þórðarson, nær kjöri inná alþingi. Þetta er í samræmi við þann meðbyr sem við höfum nú í seglinn, eftir dálítinn öldudal uppá síðkastið. Nú virðast hins vegar hin góðu mál sem við stöndum fyrir vera farin að ná eyrum kjósenda. Kvótamálin eru stærstu kosningamál sjávarbyggðanna sem hafa ekki verið að fá mikla athygli undanfarið. Það sínir fylgi Framsóknarflokksins vel en hann, eins og búast mátti við, geldur afhroð 12 maí samkvæmt öllum könnunum sem hafa verið birtar hér undanfarið. 

Það sem mér finnst þó merkilegast við þessar niðurstöður er að Sjálfstæðisflokkurinn virðist ætla að ná inn þremur mönnum í kjördæminu. Í þriðja sæti hjá Sjálfstæðisflokknum situr Ólöf Nordahl álversforstjórafrú, það veldur mér ákveðnum áhyggjum að kjósendur í þessu kjördæmi telji að það þjóni hagsmunum þess að hún nái kjöri til alþingis. 


Kosningafundur Stöðvar 2 í Suðurkjördæmi

Okkar maður, Grétar Mar, var hreint út sagt stórkostlegur á kosningarfundi Stöðvar 2 á Selfossi á miðvikudaginn. Þar benti hann réttilega á fáránleika þess að í kjördæmi eins og Suðurkjördæmi virðast engir þora að tala um sjávarútvegsmál. Hvorki frambjóðendurnir né annars sæmilegu stjórnendur. Það sást enda á Agli Helgasyni að hann vissi uppá samstarfsfólk sitt skömmina. Hann benti réttilega hversu einkennilegt það sé að bæði Vinstri grænir og Samfylking virðast leggja blessun sína yfir hið óréttláta kvótakerfi sem við íslendingar búum við, þeir virðast í það minnsta ekki sjá ástæðu til að ræða þau mál. 

Annað merkilegt sem kom fram í þættinum var að Grétar Mar er eini Suðurnesjamaðurinn sem á raunhæfa möguleika á að komast á alþingi í kosningunum í vor. Suðurnesjamenn, sem og fólkið í sjávarbyggðunum í kjördæminu, eru þarna komin með sinn mann til að efla hag þeirra.

Ef ég ætti hatt þá myndi ég taka hann ofan fyrir Grétari. 


Afneitun og leikaraskapur

Það var einstaklega merkilegt að fylgjast með stjórnmálaforingjunum í kastljósinu í kvöld. Ótrúlegar umræður sköpuðust í kringum innflytjendamál, þar sem að þeir ágætu stjórnmálaskörungar sem með Guðjóni Arnari sátu í settinu kepptust við að reyna að hallmæla stefnu okkar í innflytjendamálum. Steingrímur J., Jón Sigurðs og Geir H. kepptust við að rakka niður stefnuna en töluðu um leið máli okkar þegar þeir játuðu því aðbúnað innflytjenda þyrfti að laga, svo sem í tengslum við íslenskukennslu, svo eitthvað sé nefnt. Ingibjörg Sólrún virtist síðan vera uppteknust að því að erlent vinnuafl borgaði skatta hér og því fengi ríkissjóður pening í kassann. Þessi umræða hjá andstæðingum okkar er löngu orðinn þreytt en áfram hjakka þeir þó í sama farinu og virðast því miður eiga að fá að halda því áfram án nokkura truflanna. Mér þætti til dæmis gaman að því ef að einhver góður þáttastjórnandi tæki sig nú til og leyfði Steingrími að svara fyrir þau orð sín sem hann lét um munn sér fara árið 1993. Það er kannski ekki furða að hann hafi forðast að ræða það þegar Guðjón beindi því að honum í kvöld.

Grein sem birtist í Austurglugganum 15. mars

Úlfur Úlfur

 

Þegar ég gekk í Frjálslynda flokkinn var hávær umræða í þjóðfélaginu um stefnu flokksins í innflytjendamálum. Stjórnmálamenn kepptust við að hrópa úlfur úlfur og stimpla þá þörfu umræðu sem flokkurinn kom af stað sem rasistatal. Með þessu var reynt að slá ryki í augu fólksins í landinu, stjórnarflokkarnir vildu með því komast hjá að ljóst yrði að stefna þeirra í málum innflytjenda væri engum til hagsbóta.

Eins og flestum, sem fylgst hafa með umræðunni, ætti að vera ljóst er óheft flæði af erlendu vinnuafli inn í landið. Af þeim völdum hefur fjöldi þess ágæta vinnuafls margfaldast á síðastliðnum árum. Á þeim tíma hefur núverandi ríkisstjórn kallað það nóg að opna landið fyrir þeim. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki lagt sitt að mörkum til að hjálpa fólkinu að aðlagast íslensku samfélagi. Hún fyrirgerði meira að segja tækifærinu sem hún hafði í heimildum til að fresta gildistöku lagana sem gera vinnuafli úr nýju ESB ríkjunum kleift að koma hingað til vinnu óhindrað. Þessu hefur Frjálslyndi flokkurinn mótmælt og í staðinn hafa sprottið upp sjálfskipaðir siðgæðisverðir og úthúðað flokkinn sem rasistaflokk!

Viðkomandi fólk er með augun lokuð fyrir því að ekkert hefur verið gert í að bæta íslenskukennslu til handa nýbúum, sem er langt frá því að vera nógu góð eins og hún er núna. Réttur þeirra liðlega 17.000 erlendra ríkisborgara, sem vinnumálastofnun telur að hafi unnið hér á landi á síðasta ári, er víða ef ekki alls staðar hafður að engu. Nú er svo komið að íslensku verkafólki er sagt að hafa ekki of hátt því að annars verði bara ráðnir útlendingar í staðinn, þeir séu hvort sem er á mun lægri launum. Það hlýtur hver maður að sjá að það gengur ekki, fyrir báða aðila. Hvernig geta menn réttlætt það að borga t.d. pólskum smið 500 kr minna á tímann en íslenskum? Eru pólskir smiðir, yfir heildina, á einhvern hátt lakari en þeir Íslensku? Það er hugsanlega eitt sem hægt er að benda þar á og það eru tungumálaerfiðleikar, en eigum við að búast við því að þeir læri Íslenskuna af sjálfu sér? Mér þætti gaman að sjá íslenskan smið, eða ráðherra ef því er að skipta, reyna að læra pólsku á eigin spýtur. Þetta höfum við Frjálslyndir bent á og viljum bæta þennan málaflokk, fyrir það erum við titlaðir rasistar!

Ef að tungumálakennsla nýbúa yrði tekinn til endurskoðunar og –bóta myndi það einnig draga úr einangrun þeirra sem heiðra okkar litla land með veru sinni hér. Fólk er oft á tíðum hrætt við að fara mikið út á meðal fólks ef því finnst það ekki kunna tungumálið nógu vel, og stundum er það jafnvel svo að sumir Íslendingar líta þá hornauga sem tala Íslenskuna örlítið bjagað og gera jafnvel grín að því. Ég get ekki séð hvernig það getur tengst rasisma að vilja draga úr einangrun fólks.

Að mínu mati á einnig að fylgjast vel með því hvernig atvinnurekendur búa að starfsfólki sínu, nú þegar við höfum heyrt sögur af skammarlegum aðbúnaði erlendra starfsmanna, þar sem þeim er mörgum hrúgað saman í alltof litlar íbúðir og svo sjá svo á eftir fáránlega hárri summu af launum sínum fyrir leigu.

Það er kannski ekki skrýtið að stjórnarflokkarnir hafi tekið kipp við þessa umræðu enda hafa þeir vitað sem var að hún ætti eftir að vekja fólk til umhugsunar, og það er ekki vinur ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Flokkurinn, sem er forsenda þess að það náist að fella núverandi ríkisstjórn, fann þarna málefni sem brann á flestum en enginn nema Frjálslyndir þorðu að ræða. Þegar umræðan var kominn af stað var allt kapp lagt á að brennimerkja hana sem rasistatal, eins og fyrr segir. Skipti þá engu hvaða angi af málinu var ræddur, ef að rætt var um smitsjúkdóma og að á varðbergi yrði að vera fyrir þeim. Ég get bara ekki með nokkru móti séð rasisma útúr því, það er nánast ekkert eðlilegra en að einhverjir séu veikir einhverntíma, hvort sem það eru Íslendingar, Kínverjar eða Ástralir. Það skiptir hreinlega ekki máli, öll getum við orðið veik.

Við þekkjum það líka að í mörgu fé leynist misjafnur sauður oft á tíðum. Þannig er það með okkur Íslendinga, annars væri varla fangelsisvandi á Íslandi ekki rétt? Er hreinlega á það bætandi að fá hingað inn fólk sem er jafnvel með nauðganir á bakinu, er kannski ekki búið að sitja dóma af sér? Það leysir ekki fangelsisvandann. Auðvitað eiga þeir sem fengið sína dóma og greitt samfélaginu sínar skuldir skilið annað tækifæri, en er það okkar hlutverk að veita erlendum ríkisborgurum það? Með þessari umræðu er alls ekki verið að ráðast á alla erlenda ríkisborgara sem dvelja hér um þessar mundir, en eins og ég sagði áðan þá leynist oft misjafnir sauðir í mörgu fé. Þeir eyðileggja oft heildarásýnd annara og því ætti það að hjálpa þeim stóra meirihluta sem eru hér á landi og hafa ekkert sökótt á samviskunni.

Þriðjudaginn 6. mars birtist frétt á blaðsíðu 4 í Blaðinu þar sem sagt er frá pólskum eiganda verktakafyrirtækis í Reykjavík sem nýverið var kærður fyrir árás á starfsmann sinn. Ekki er það nú það eina heldur afplánar hann nú fangelsisdóm fyrir kynferðislegt ofbeldi. Seinna í fréttinni er síðan týnt ýmislegt til úr grein Ísafoldar um verktakann, hann er sagður ganga undir nafniu The Criminal og hann hafi rukkað starfsmenn fyrir mat þegar þeir störfuðu utan Reykjavíkur, þó að skylda sé að veita þeim frítt fæði. Þeir fengu heldur ekki greidd laun á ferðum til vinnu frá Reykjavík. Eins og að þett sé ekki nóg þá kom hann einnig 11 starfsmönnum sínum fyrir í íbúð sem hann leigði með því samningsbundna skilyrði að fleiri en fjórir mættu ekki búa þar. Eftir þessa upptalningu koma sögur af misjöfnum viðskiptaháttum mannsins í Póllandi ekki að óvart. Þessi frétt er eins og dæmisaga um þá hluti sem Frjálslyndi flokkurinn hefur verið að berjast fyrir að undanförnu.  Það þarf hreinlega ekki skýringar við.

Einnig er það sjálfsögð krafa að menntun fólks verði metin til fullnustu hér, það er hryggilegt að heyra sögur af fólki með háskólapróf sem kemur og vinnur í fiski, þegar það er svo sannarlega nóg pláss fyrir það þar sem það á heima í íslensku samfélagi.

Eftir þessa upptalningu vona ég að þú lesandi góður sjáir hlutina í því rétta ljósi Frjálslyndis sem ég sé þá en ekki í því ranglæti sem ríkisstjórnin og fjölmiðlar margir hverjir hafa predikað yfir landsmönnum að sé stefna okkar. Ég spyr einfaldlega, er það rasismi að vilja bæta íslenskukennslu fyrir nýbúa? Vilja hjálpa þeim að aðlagast íslensku samfélagi og að jafnréttis sé gætt varðandi laun þeirra? Er það rasismi að vilja búa þannig um hnútana að erlent verkafólk búi ekki margt saman í litlum íbúðum eða jafnvel bátum? Er það rasismi að vilja koma í veg fyrir að smitsjúkdómar berist inní landið, eins og gert er annars staðar í heiminum?

Ég tel að svörin við þessum spurningum séu öll nei. Þess vegna gleður mig að varaformaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs sé nýjasti talsmaður okkar Frjálslyndra í þessum málum, eins og sýndi sig í spjall þætti á Rás 2 fyrir stuttu síðan, þó að hún hafi því miður ekki enn kynnt sér stefnu okkar nógu vel í þessum efnum. En kannski er það fyrirboði þess að þeir sem hæst hafa haft gegn okkur undanfarið sjái loks að sú umræða þeirra sé jafn vitlaus og að elta flugu með tannstöngli.

 


 


En Frjálslyndir?

Ég veit ekki betur en að við í Frjálslynda flokknum séum ennþá starfandi, af hverju er þá ekkert minnst á okkur? Þessi frétt hljómar eins og dæmi í stærðfræði sem ég þurfti að reikna í 8.bekk í gamla daga, ég bendi höfundi hennar á að athuga hjá námsgagnastofnun hvort að ekki sé verið að safna dæmum í nýja stærðfræðibækur, þá getur hann fengið smá vasapening í viðbót. Þessi frétt er einkennandi við það óréttlæti sem við Frjálslyndir berjumst við. Fréttamenn hafa ekki einu sinni fyrir því að nefnast á okkur! Af hverju er það? Af hverju þessi slælegu vinnubrögð? Er kannski moggamafían hrædd við að Frjálslyndi flokkurinn sé til? Ég bara hreinlega skil þetta ekki.
mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið frá síðustu könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband