Baráttan að fara í gang

Egilsstaðir skörtuðu sínu fegursta í dag þegar við Frjálslynd í norðausturkjördæmi opnuðum kosningaskrifstofu okkar í bænum. Á morgun skundum við Ásta, sem leiðir listann í kjördæminu, svo norður á Akureyri héðan að austan og opnum skrifstofuna þar. Svo byrjar bara fundarherferðin á mánudaginn með fundi á Siglufirði um kvöldið. Vorið er semsagt að koma, enda sást víst lóan í hornafirði fyrir stuttu. 

Listinn hjá okkur er líka tilbúinn og mun ég persónulega verma 4.sæti listans, auk þess sem ég verð titlaður kosningastjóri í kjördæminu. Undanfarin vika eða svo hefur farið nánast öll í það að skipuleggja fundaherferð og heimsóknir hér og þar, ferðast á milli Akureyrar og Egilsstaða auk þess sem maður reynir að fylgjast með fréttum og öllu því sem er að gerast í þjóðfélaginu.

Ég var til að mynda að skoða fréttavef Austurgluggans, þar skoðaði ég til dæmis listann okkar sem ég sendi á fjölmiðla í gær. Þeir sem glöggir eru taka eftir því að þar eru aðeins taldir um 19 nöfn á lista. Þetta gerðist reyndar á mbl líka, þar sem að Oddur Jóhannsson á Vopnafirði var strokaður út úr 17.sætinu sínu. Virðist reyndar sýna það að ritstýra gluggans noti Copy/paste aðferðina. Það virðist heldur ekki vera áhugi fyrir því að laga viðkomandi mistök, þó að bent hafi verið góðfúslega á þau.

Ég vil svo sem ekki vera með nein leiðindi útí neinn, sérstaklega ekki fjölmiðla sem gera sjálfsagt sitt allra allra besta. En til að ljúka umfjöllun minni, þá kíkti ég áðan aftur á austurgluggann. Þar var frétt um lista sjálfstæðismanna í kjördæminu. Þarna eru nokkur önnur vinnubrögð viðhöfð, reyndar annar höfundur að greininni en þeirri sem fjallaði um okkar lista. Þarna er fólk titlað ýmislegt, nemar, alþingismenn og þar fram eftir götunum og tekið er fram hvaðan fólk er. Þetta er ekki gert í fréttinni um okkur, þó svo að ég hafi persónulega gefið upp nákvæmlega sömu upplýsingar um okkar fólk.

Ég geri mér grein fyrir að kannski hljómar þetta eins og argasta smámunasemi í eyrum einhverra, en er þetta samt bara ekki eitthvað sem á að vera algjörlega fíflhelt að gera? Eða er það einhver óskrifuð regla, meira að segja á héraðsfréttablöðum, að gera sem minnst fyrir eða úr Frjálslynda flokknum? sama hvernig menn gera það.

Það er sorglegt að hægt sé orðið að segja að maður sé orðinn vanur þessari meðferð. Sorglegt!


Blindaður af ást, eða hræðslu?

Það getur svo sem meira en verið að Geir blessaður hafi rétt fyrir sér um hatur Samfylkingarinnar á Davíð, en þegar hann segir þetta um Samfylkinguna er hann í rauninni að segja að þjóðin hati Davíð líka. Eða hefur hann kannski raunverulega ekki ennþá tekið eftir því hvað þjóðin hefur verið að hrópa eftir niður á Austurvelli?

Ég veit ekki hvort að gerð hefur verið könnun á því hve stór hluti landsmanna vill Davíð burt úr Seðlabankanum. Hún hefur í það minnsta farið framhjá mér ef hún hefur verið gerð. Það kæmi mér ekkert að óvart ef að þær tölur yrðu nokkurn vegin Sjálfstæðismenn á móti rest, sem sagt 70-75% sem vildu breytingar. Er íslenska þjóðin þá orðin svona hatursfull?

Ég er einn af þeim sem vill fátt heitara þessa daganna en að Davíð, og reyndar félagar hans tveir líka, hverfi hið snarasta úr Seðlabankanum. Hef reyndar verið á þeirri skoðun lengi. Það hefur ekkert með hatur að gera, ég myndi frekar tengja það við heilbrigða skynsemi. En hún er sennilega sjaldséður hvítur hrafn í Sjálfstæðisflokknum.  

Málið snýst í rauninni ekki um persónuna Davíð Oddson, heldur pólitíkusinn Davið, og þá staðreynd að það er í hæsta máta stórfurðulegt að fyrrverandi stjórnmálamaður sem uppfyllir ekki nokkrar hæfniskröfur að öðru leyti sé einn æðsti stjórnandi peningamála í landinu. Þar skiptir í rauninni engu máli hvort um væri að ræða Jón Baldvin frekar en Davíð eða hvaða pólitíkus sem er ef því er að skipta. 

Sjálfstæðismenn hafa hins vegar persónugert þessa kröfu, flest allra annarra en þeirra í landinu. Hver ástæðan fyrir því er nákvæmlega veit ég ekki. Það gæti verið að eftir allan þennan tíma sé ást þeirra á fyrrverandi formanni sínum enn svo sterk þeir séu tilbúnir að vaða eld og brennistein til að ekki sé hróflað við honum.  Kannski er þetta bara hrein og klár hræðsla, að þegar til kom hafi mönnum skort kjark til að setja ofan í við gamla herrann.

Geir er kannski,eftir allt, ekkert betri en ljónið í galdrakarlinum í oz. 


mbl.is Geir: Stjórnuðust af hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi að menn hlusti

Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að fólk kallar eftir því að verðtrygging lána verði fryst, eða jafnvel aflögð, hið snarasta. Núverandi lánakerfi með verðtryggingu er eitt af því svo mörgu sem er óréttlátt á Íslandi í dag. Það er aftur á móti hægt að leiðrétta það óréttlæti, ólíkt öðru.

 Benedikt er ekki fyrsti maður sem talar gegn verðtryggingnunni, og verður svo sannarlega ekki sá síðasti.  Það er ekki hægt að sætta sig við að höfuðstólar lána fólks í landinu hækki upp úr öllu valdi í því árferði sem nú ríkir. Árferði sem er komið til vegna slæmrar hegðunar fárra manna.

Stefna Frjálslynda flokksins er klár og hefur alltaf verið, við höfuð ætíð staðið fastir gegn verðtryggingu lána og það er klárlega eitt af höfuðmálum okkar. Enda skiptir það fólkið í landinu miklu máli að fá sem besta lánamöguleika. Um miðjan Október skrifaði Guðjón Arnar grein í Morgunblaðið þar sem hann lagði til að verðtrygging yrði í það minnsta fryst um nokkurt skeið. Því miður virðist ekki hafa verið hlustað á það, enda spái ég því að núverandi sem bráðlega verður vonandi fyrrverandi ríkisstjórn verði minnst sem ríkisstjórnarinnar sem gerði EKKI.... 


mbl.is Verðtryggingin verði fryst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirmynd?

Bjarni Harðarson gerði sig sekan um alvarleg mistök í starfi. Um það verður, held ég, ekki deilt. Bjarni er þar með kominn í hóp með mörgum öðrum sem hafa á undanförnum vikum gerst  sekir um alvarleg mistök í störfum sínum. 

Þessir menn ættu að taka Bjarna sér til fyrirmyndar. Það hljóta flestallir að geta tekið undir það að afglöp Bjarna voru mikið mun vægari og minni en margra annara á síðustu dögum. Þau höfðu ekki áhrif á eins marga til að mynda. Það verður aftur á móti ekki mælt á móti því að þetta voru  mikil mistök og óverjandi.

 


mbl.is Bjarni segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalefnið er að gleymast

Það virðist vera að spilast vel úr spilunum fyrir Valgerði Sverrisdóttur eins og hlutirnir líta út núna. Frá því að klúður Bjarna varð opinbert í gærkvöldi virðast nánast allir sem hafa tjáð sig um málið gleymt um hvað það ætti í raun að snúast. Valgerður grætur það að öllum líkindum ekki. Ef að ekki hefði komið til klúðurs Bjarna, sem er töluvert mikið, þá værum við vonandi að horfa uppá það að Valgerður væri nú spurð útúr um efni bréfsins. Henni til mikils létts gæti ég trúað. 

Það sem skiptir máli er það að Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hefur enn sem komið er ekki þurft að horfast í augu við þá staðreynd að það var hún sem var viðskiptaráðherra þegar að bankarnir voru einkavæddir. Eitthvað sem að margir Framsóknarmenn voru greinilega ekki ánægðir með. Hún ber því ábyrgð á því ásamt öðrum og, eins og mennirnir í bréfinu segja líka, á því regluverki sem sett var fyrir bankanna að starfa í. 

Valgerður talar fjálglega um að Bjarna sé illa stætt á því að sitja áfram á þingi, talar um samvisku hans og segist sjálf ekki myndi gera það. En hvað með hana sjálfa? Hver er hennar ábyrgð? Hvað með hennar samvisku? Ætti hún jafnvel ekki að axla einhverja ábyrgð á þeim aðstæðum sem hafa blasað við landsmönnum síðasta rúma mánuðinn?

Ég geri mér fulla grein fyrir því að Valgerður er langt í frá sú eina sem ætti að horfa í eigin barm á þessum tíma. Ég vona samt sem áður en Valgerður verði ekki svo heppin að tilraun til þess að vekja athygli á þessu fari ekki útum þúfur vegna þess klúðurs sem Bjarni gerði sig sekan um. Sem ég ætla mér aftur á móti ekki að verja hér, né fjalla meira um.


mbl.is Bjarni íhugi stöðu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögulegur sigur

Það er nánast ótrúlegt að verða vitni að þessum sögulega atburði, en það eru líka forréttindi. Stjarna Baracks Obama hefur risið upp á stjórnuhimininn með ótrúlegum hraða. Kjör hans sem 44. forseti Bandaríkjanna er söguleg. Obama er þörundsdökkur, ber millinafnið Hussein og hefur aðeins verið þingmaður í 4 ár. Hann er, eins og einhver orðaði það, úr ríki sem bandaríkjamenn kjósa sér ekki forseta úr. 

Það er ekki mannsaldur síðan að réttindi blökkumanna í Bandaríkjunum voru fótum troðin. Það er því vissulega hjartnæm stund að sjá menn eins og Jesse Jackson tárast á kosningagleði Obama í Chicago. Sonur Martin Luther King talaði fyrir stuttu síðan í kirkju Obama, ef ég hef tekið rétt eftir, og sagði að hann óskaði þess að faðir hans og móðir hefðu getað orðið vitni ef því sem nú hefur gerst.

John McCain var að játa ósigur sinn fyrir örfáum mínutum síðan og sú ræða gerði það að verkum að hann fer frá þessari baráttu með reisn. Hann var kannski eftir á að hyggja í stöðu sem enginn hefði getað látið vinna sér í hag.

Ég bíð spenntur eftir ræðu Obama, hún getur komist á stall með draum-ræðu Kings. 

Obama bíður mikið verk að standa undir öllu því sem af honum er búist, aðeins sagan mun dæma um hvort að honum tekst að standa undir því. En það eitt er víst að hann hefur þegar skrifað nafn sitt með stórum stöfum í sögu bandarísku þjóðarinnar, og heimsins. Öll þrjú nöfnin. 


mbl.is Obama kjörinn forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nánast orðlaus

Núna hefur hringavitleysan staðið yfir í um það bil mánuð, og ótrúlegt en satt rekur mann enn og aftur í rogastans. Ég hélt satt best að segja að það væri fátt sem kæmi mér að óvart í tengslum við þessa banka lengur. 

En auðvitað á þetta ekki að koma neinu okkar að óvart. Þessar fréttir um afskriftir skulda æðstu stjórnenda Kaupþings eru bara í takti við þann heim sem fyrrum útrásarvíkingar Íslands virðast búa í. Hann er í það minnsta allt öðruvísi en sá heimur sem við venjulegir borgarar eigum að venjast. 

Það er algjörlega ólíðandi fyrir okkur fólkið í landinu að mennirnir sem eiga stóran þátt í því að svona er fyrir okkur komið skuli geta hagað sér svona. Ef að Björgvin viðskiptaráðherra ætlar sér að koma til baka eftir misjafna frammistöðu síðasta mánuðinn verður hann að standa í lappirnar í þessu máli og sýna fólki hver það er sem ræður í viðskiptaráðuneytinu  


mbl.is Bankamenn fá ekki sérmeðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að strípa niður pönklag

Það er nú það síðasta sem ég vil gera að vera með leiðindi við saklaust fólk, en ég verð nú bara aðeins að tjá mig um þetta.

Jakob Smári, sem er annars fyrirtaks bassaleikari þrátt fyrir að hafa verið í SSSól, minntist á það í þessari "frétt" að kokteilkvartettinn hans væri að strípa niður pönklög.

Ég get bara ekki fyrir mitt litla líf áttað mig á því hvernig í ósköpunum það er hægt að strípa niður lag úr tónlistarstefnu þar sem aðalmarkið var að vera eins hráir og mögulegt var. Þar sem hljóðfærafærni var aukaatriði, söngur nánast óæskilegur hjá þeim hörðustu, varla fleiri en einn gítar, kannski tveir og lögin voru löng ef að þau teygðust á þriðju mínutu.

Þetta á allt saman vel við um Sex Pistols, enda urðu þeir hálfgerðir tákngervingar pönksins. Anarchy in the UK er einmitt með þeim sem ekki vita.

Ég heyrði tónana sem hljómuðu undir "fréttinni" og þetta er langt frá því að vera strípun, þetta er í rauninni frekar andstæðan við það.

En ég leyfi mér þó alveg að fyrirgefa Jakob þessa vitleysu, hún er svo langt frá því að vera sú alvarlegasta sem gerð hefur verið hér á landi undanfarið. 


mbl.is Anarkisti í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt hægt að læra af Færeyingum

Það sannaðist að frændur okkar rétt fyrir austan okkur eru góðir vinir. 

Það gætu margir lært mikið af frændum okkar Færeyingum, og þá kannski sérstaklega ríkisstjórnin sem enn situr við völd í landinu. Til að mynda drengsskap, svo ekki sé minnst á stjórnun fiskveiða. 


mbl.is Árni Johnsen vill færeyska krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins á austurlandi

Sunnudaginn 19. október var, eins og kannski einhverjir höfðu þefað uppi annarsstaðar, stofnað bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins á Austurlandi. Fundurinn var bæði góður og skemmtilegur, eins og Sigurjón Þórðar hefur áður minnst á, þrátt fyrir að veðrið fyrir austan hafi sett talsvert strik í reikninginn hvað varðaði fundarmætingu. 

Á endanum var mér falið það verk að vera í fararbroddi þessa félags fyrstu skrefin, ásamt fleiru góðu fólki, sem er:

Kristján Valur Sigurðsson

Stella Steinþórsdóttir

Ólafía Herborg Jóhannsdóttir

Eyjólfur Ólafsson

Guðbjörn Gylfason

Oddur Jóhannsson

 

Ég hef haft nóg að gera síðustu daga við að lesa í lögfræðinni, en ég mun svo sannarlega gera mitt besta til að vinna Frjálslynda flokknum það mesta gagn sem ég get. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband